Kóreupopp

Tónlistarstefna frá Suður-Kóreu

Kóreupopp (e. K-pop) er tónlistarstefna sem á rætur að rekja til Suður-Kóreu. Helstu einkenni stefnunnar eru gríðarleg fölbreytni, gríðarleg markaðsframleiðsla og fjölmennar hljómsveitir. Kóreupopp er aðeins nýlega farið að færa út kvíarnar í öðrum heimshlutum.[1] Eitt frægasta lag sem flokkast undir kóreupopp er Gangnam Style eftir Psy.

Sá kóreupoppari sem náð hefur hvað lengst á heimsmarkaði er Psy með laginu Gangnam Style

Einkenni

breyta

Kóreupopp er í sjálfu sér alveg einstök tónlistarstefna. Tónlistin er samanbland af raftónlist, diskó, rokki og rappi. Innan stefnunnar má finna allt frá rokki yfir í rafdanstónlist yfir í ballöður. Þetta gerir Kóreupopp að einni fjölbreyttustu stefnu sem finnst í heiminum í dag. Margir af listamönnunum sem við sjáum í dag eru uppgötvaðir og þróaðir af stórum plötufyrirtækjum til þess að heilla áhorfendur. Einkenni þessara hljómsveita eru samhæfðir dansar (e. tutting) þar sem allir aðilar hópsins skiptast á að syngja. Einnig er að finna staka einsöngvara á borð við BoA sem reiða sig frekar á röddina. Þessir tónlistarmenn eru algengari í ballöðum. Eitt einkenni eiga þó flest lög stefnunnar sameiginlegt, og það er að þau þykja oft hröð og orkumikil miðað við aðrar stefnur. Skemmtilegt sérkenni í kóreupoppi er hvernig þeim tekst að blanda saman kóresku og ensku til þess að ná fram eins grípandi lögum og mögulegt er. Oft eru viðlögin með enskum slettum en erindin sjálf á kóresku.

Hljóðfæri

breyta

Þegar kóreupoppið var að byrja voru hljóðfærin í því ekki mjög frábrugðin þeim sem notuð voru í vestrænni tónlist. Það sem var helst að finna í tónlistinni frá 6. og allt að 10. áratuginum var rafmagnsgítar með píanói í bakgrunninum. Oft var minna um trommur að vera í klassísku lögunum en tíðkaðist í Evrópu. Annað hljóðfæri sem hefur alltaf verið gríðarlega vinsælt í kóreupoppi er fiðlan, en hún er oft notuð í viðlaginu í takt við rödd söngvarans. Síðan um miðjan 10. áratuginn hefur það orðið sífellt algengara að notast við hljóðgervla við tónsmíð. Þetta hefur sífellt verið að aukast og er staðan í dag að lítið er notast við alvöru hljóðfæri til þess að semja tónlistina.[2]

Kóreupoppið á sér tiltölulega stutta sögu. Kórea var lengi hluti af keisaradæmi Japans og var flestöll listræn tjáning í Kóreu ekki leyfð þar til um 1940.[3] Þegar þetta breyttist var fyrsta tónlistin sem Kóreubúar heyrðu hin bandaríska rokktónlist. Það var margt sem gerði það að verkum að kóreubúar tóku bandarísku tónlistina svona til sín. Í fyrsta lagi var alþýðan mjög þakklát hermönnunum fyrir að losa sig undan Japönum, og gerðu sitt besta til þess að gera þeim til geðs. En það mikilvægasta var að fyrsta útvarpsstöðin til þess að útvarpa tónlist til almennings var bandarísk.[4] Þessi stöð sendi ekki einungis frá sér dægurlagatónlistina frá heimalandinu sínu, heldur hvöttu þeir líka innfædda til þess að spila eigin útfærslur á tónlistinni á stöðinni. Þetta var byrjunin á kóreupoppi. Næstu áratugirnir skiptu Kóreupoppið gríðarlega miklu máli. Landið hafði byrjað að þróast og tónlistin breyttist með því. Það er svo á 5. og 6. áratuginum sem að rokkhljómsveitir á borð við Bítlana komu af stað byltingu í K-poppi. Tónlistin tók á sig mun uppreisnargjarnari mynd og varð dægurtónlistin á þessum tíma mjög lík bandaríska rokkinu. Tónlistin fjallar aðallega um hvernig Kóreubúar geti unnið saman til þess að byggja landið upp.[5] Þetta breytist árið 1960 þegar að herstjórn undir leiðsögn Park Chung Hee tekur völdin í landinu. Með þessu er öllum áhrifum frá öðrum löndum hætt og landinu lokað af. Við þetta breytist kóreupoppið alveg gríðarlega. Tónlistin verður hægari og mýkri, og fer að líkjast ballöðum frekar en rokki.[6] Aðalmálið var þá frekar að söngvarinn væri hæfileikaríkur, frekar en hljóðfæraleikararnir. Þessi stíll af tónlist er enn með þeim vinsælustu í dag. Annað sem breytist með komu einræðisherrans var sú staðreynd að Bandaríkjamenn studdu við ríkisstjórnina. Þetta gerði það að verkum að Ameríkanar voru ekki lengur séðir sem vinir, og fóru því tónlistarmenn að leyta sér að öðrum áhrifum. Þetta fundu þeir í japanskri tónlist.[7] Japanska tónlistin var einstök að því leyti að hún gat höfðað til fleiri þjóða en bara Japana. Hún innihélt mörg af þeim einkennum sem við sjáum í Kóreupoppi í dag.[8] Frá þessu hefur Kóreupoppið haldið áfram að þróast og breytast, þar til það verður að fyrirbærinu sem við þekkjum sem K-pop í dag.

Mikilvægir tónlistarmenn

breyta
 
BoA varð fyrst kóreupoppara til að komast inn á japansmarkað.

BoA eða Kwon Bo-Ah, er einn þekktasti tónlistarmaður stefnunnar í dag. Hún hóf feril sinn árið 2000 eftir að SM Entertainment uppgötvaði hana. Það sem gerir BoA svona einstaka er að hún er fyrsta stjarnan sem risafyrirtæki tók að sér og gerði fræga víðsvegar um heiminn. Segja mætti að BoA sé ástæðan fyrir því að kóreupopp sé þekkt út fyrir Suður Kóreu. Þessi söngkona gerði garðinn frægann með albúminu sínu Don’t Start Now, en þar syngur hún bæði á japönsku og kóresku. Með þessu tókst henni að komast á topp vinsældalistans í báðum löndum samtímis, og setti jafnframt sölumet í Kóreu.[9]

Kim Gwang-Seok

breyta

Kim Gwang-Seok er einn af þeim tónlistarmönnum sem höfðu hvað mest áhrif á samfélagið á sínum tíma. Hann hóf tónlistarferil sinn árið 1988, en fyrir það hafði hann eytt mörgum árum í hópnum People Who Seek Music, þar sem hann dreifði ólöglegum kasettum meðal stjórnarandstöðunnar. Sem tónlistarmaður var hann aðallega þekktur fyrir hæfileika sína á gítar og rödd sína, en honum hefur stundum verið líkt við Bob Dylan kóreupoppsins. Kim Gwang framdi sjálfsvíg árið 1996 og lokaði þar með þeirri gullöld kóreupoppsins sem hann hafði skapað.[10]

Kim-Ming Gi

breyta

Þekktur sem einn af helstu fólktónlistarmönnum Suður-Kóreu, Kim-Ming Gi hóf feril sinn í háskóla árið 1969. Stuttu eftir það gaf hann út plötu sem var ætluð til mótmæla gegn harðstjórninni. Þessi plata var umsvifalaust bönnuð og stuttu seinna var Kim-Ming bannað að koma fram á opinberum stöðum, í sjónvarpi eða í útvarpi. Með þessu ætlaði stjórnin sér að bæla niður uppreisnarandann sem var að finna lögum söngvarans. Þrátt fyrir tilraunir til þess að eyða plötunni var henni dreift á meðal demókrata í Suður-Kóreu og varð eitt af lögum plötunnar Morning Dew að einkennislagi stjórnarandstöðumanna þegar barist var á móti einræðisherranum. Þetta festi Kim-Ming Gi í sessi sem einn helsta tónlistarmann 9. áratugarins.[11]

Heimildir

breyta
  1. Tesol, Brett. „The History of Korean Pop Music“. Sótt 1.3.2013 2013.
  2. Dixon, Tom. „The Journey of Cultural Globalization in Korean Pop Music“. Sótt 1.3.2013 2013.
  3. Bender, Matt. „Korean Popular Music“. Sótt 4.3.2013 2013.
  4. Kim, Soyoung. „Old School K-Pop“. Sótt 3.3.2013 2013.
  5. Dixon, Tom. „The Journey of Cultural Globalization in Korean Pop Music“. Sótt 1.3.2013 2013.
  6. Kim, Soyoung. „Old School K-Pop“. Sótt 3.3.2013 2013.
  7. Dixon, Tom. „The Journey of Cultural Globalization in Korean Pop Music“. Sótt 1.3.2013 2013.
  8. Dixon, Tom. „The Journey of Cultural Globalization in Korean Pop Music“. Sótt 1.3.2013 2013.
  9. The Korean. „50 most influential K-pop artists“. Sótt 1.03.2013 2013.
  10. The Korean. „50 most influential K-pop artists“. Sótt 1.03.2013 2013.
  11. The Korean. „50 most influential K-pop artists“. Sótt 1.03.2013 2013.