Jonestown
Jonestown var lítið þorp í norðvestur hluta Gvæjana sem var reist af sértrúarsöfnuðinum Peoples Temple. Jonestown var stofnað á miðjum sjöunda áratugnum af leiðtoga safnaðarins, Jim Jones. Um 1000 manns bjuggu þar þegar mest var. Jonestown öðlaðist heimsathygli árið 1978 þegar um 900 safnaðarmeðlimir frömdu sjálfsmorð.
Uppruni
breytaThe Peoples Temple var sértrúarstöfnuður sem var stofnaður í Indianapolis, Indiana, á miðjum fimmta áratugnum. Á sjötta áratugnum hafði fækkað í söfnuðinum og taldi hann ekki nema nokkur hundruð meðlimi. Söfnuðurinn var við það að leggjast niður þegar Jones tókst að koma á sambandi milli safnaðarins og samtakanna Disciples of Christ. Þetta nýja samband efldi mannorð Peoples Temple, jók meðlimafjöldann og um leið áhrif Jim Jones. Árið 1965 flutti Jones ásamt 80 meðlimum til Redwood dals í Mendocina sýslu, Kaliforníu, þar sem þau töldu sig vera hólpin ef kæmi til kjarnorkuárásar á Bandaríkin. Árið 1972 flutti Jones söfnuð sinn til San Francisco, Kaliforníu og opnaði fleiri kirkjur í Los Angeles, Kaliforníu. Í San Francisco breytti Jones pólitískri ímynd sinni, breyttist úr andstæðingi kommúnisma í sósíalista, ásamt því að hann tók að styðja efnilega pólitíska frambjóðendur munnlega. Jones var skipaður í borgarnefnd og veitti fjárstyrki til dagblaða á svæðinu með því markmiði að standa við fyrsta boðorðið. Jones hóf góðgerðarstarfssemi með því markmiði einu að safna að sér liði fátækra.
Eftir fjölda hneykslismála sem upp komu varðandi Peoples Temple og rannsóknir á skattsvikum forkólfa þess í San Francisco, hóf Jones að skipuleggja flutning safnaðarins á ný. Árið 1974 tók Jones á leigu um 15.4 km² frumskógarsvæði hjá ríkisstjórninni í Gvæjana. Meðlimir safnaðarins hófu framkvæmdir á Jonestown undir eftirliti eldri safnaðarmeðlima. Jones sneri aftur til Kaliforníu árið 1977 og hvatti alla meðlimi safnaðarins til að flytja til Jonestown, sem hann kallaði „Landbúnaðarverkefni Peoples Temple“. Árið 1977 hafði íbúabyggð í Jonestown verið um 50 manns en fjölgað í yfir 900 manns árið 1978.
Stofnun Jonestown
breytaMargir meðlimir safnaðarins trúðu því að Gvæjana, eins og Jones hafði lofað, yrði paradísi líkast. Vinna fór fram sex daga vikunnar, frá sjö á morgnana til sex á kvöldin og steig hitinn oft á tíðum upp í 38°.
Samkvæmt sumum meðlimunum fengu flestir sem í þorpinu bjuggu lítið annað en hrísgrjón og baunir á meðan Jones borðaði egg, kjöt, ávexti, salöt og drykki sem hann geymdi í eigin ískáp. Líkamlegir kvillar eins og niðurgangur og hiti, herjaði á helming íbúa Jonestown í febrúar 1978.
Ýmsum refsingum var beitt á meðlimi sem voru taldir eiga við alvarleg hegðunarvandamál að stríða. Aðferðinar voru meðal annars að loka þá inni í þröngum viðarkössum og voru börn neydd til að eyða nótt í brunni, stundum á haus. Meðlimir sem reyndu að flýja voru dópaðir upp þar til þeir voru ófærir um slíkt. Vopnaðir verðir vöktuðu svæðið dag og nótt til að þorpsbúar Jonestown viðhéldu tryggð sinni við Jones.
Börn voru sett í samfélagsumönnun, áttu að ávarpa Jones sem „pabba“ og var einungis leyft að sjá foreldra sína í stuttan tíma á kvöldin. Einnig fullorðnir urðu að ávarpa Jones sem „faðir“ eða „pabbi“.
Fjöldasjálfsmorðin sem síðar áttu eftir að gera Jonestown að heimsþekktu þorpi voru æfð á svokölluðum „hvítum nóttum“. Í eiðsvarinni yfirlýsingu lýsti flóttamaður einn frá Jonestown, Deborah Layton, hvernig æfingarnar fóru fram.
„Öllum, þar á meðal börnunum, var sagt að mynda röð. Þegar röðin gekk fram var okkur rétt lítið glas með rauðum vökva í til að drekka. Okkur var sagt að vökvinn innihéldi eitur og að við myndum deyja á næstu 45 mínútum. Við gerðum öll það sem okkur var sagt. Þegar það var komið að þeim tímapunkti sem það hefði tekið eitrið að virka, tilkynnti Jones okkur að þetta væri í raun ekki eitur, en að við höfðum staðist hollustuprófið. Hann aðvaraði okkur að það yrði ekki langt í það að það yrði nauðsyn fyrir okkur að falla fyrir eigin hendi.“
Rannsóknir
breytaÞriðjudaginn 14. nóvember 1978, flaug þingmaðurinn Leo Ryan, demókrati frá San Francisco, til Gvæjana ásamt 18 manna sendinefnd. Sendinefndin samanstóð af embættismönnum, fjölmiðlafólki og meðlimi í hópi sem kallaði sig „áhyggjufullir ættingjar meðlima Peoples Temple“.
Ryan og hópnum var falið að rannsaka ásakanir um brot á mannréttindum, óheiðarlega fangelsun, sviksamar eignaupptökur á bæði peningum og vegabréfum meðlima safnaðarins, æfingar á fjöldasjálfsmorðum og morð á 7 meðlimum sem höfðu reynt að komast undan Jonestown. Frá þeim tíma þegar Ryan og aðrir komu á miðnætti í Georgetown, höfuðborg Gvæjana, miðvikudaginn 15. nóvember, voru engin merki um það að hlutirnir myndu ganga greitt fyrir sig. Hótelherbergi sem höfðu verið pöntuð voru upptekin og varð hópurinn að finna annan samastað. Næstu daga neituðu lögfræðingar Jonestown að tala við Ryan og hóp hans um mál tengd Jonestown.
Meðan á dvöl Ryans stóð, heimsótti hann höfuðstöðvar Peoples Temple í úthverfi Lamaha Gardens og talaði Ryan meðal annars við safnaðarmeðliminn Laura Johnston Kohl og fleiri sem sýndu honum höfuðstöðvarnar. Ryan bað um að fá að tala við Jim Jones en Sharon Amos, sem var æðsti safnaðarmeðlimurinn á svæðinu, sagði Ryan að það væri ekki möguleiki þar sem heimsókn hans hefði ekki verið tilkynnt með fyrirvara.
Heimsókn Leo Ryan til Jonestown
breytaSíðla morguns föstudagsins 17. nóvember, tilkynnti Ryan að hann myndi fara til Jonestown um 14:30, sama hvernig stundatöflu Jim Jones væri háttað. Hópurinn hélt til Jonestown nokkrum klukkutímum síðar og lentu á Port Kaituma flugvellinum sem var í 10 km fjarlægð frá Jonestown. Einungis Ryan og þremur öðrum úr hópi hans var upphaflega hleypt inn í Jonestown en afgangurinn af hópnum fékk að koma eftir sólsetur.
Það var skýrt frá því seinna og staðfest með segulböndum sem fundust á staðnum, að Jones hafði æft safnaðarmeðlimi í Jonestown og sagt þeim hvernig ætti að taka á móti Ryan og láta líta þannig út að allir væru ánægðir með veru sína þar.
Fyrsta kvöldið sem Ryan og hópur hans voru í heimsókn var haldin veisla og tónleikar honum til heiðurs. Meðlimir safnaðarins voru vandlega valdir af Jones til að fylgja ákveðnum aðilum úr hópi Ryans um svæðið. Sumir safnaðarmeðlimirnir voru óánægðir og litu á heimsókn Ryans sem vandræði sem hann hafði komið með að utan, á meðan aðrir sinntu sínum daglegu verkum. Tveir meðlimir safnaðarins, Vernon Gosney og Monica Bagby, gerðu tilraun í að láta vita að þau vildu komast burt frá staðnum. Gosney rétti blaðamanninum Don Harris blað sem á stóð „Vernon Gosney og Monica Bagby. Vinsamlegast hjálpið okkur að komast burt frá Jonestown.“
Þessa nótt gisti Ryan ásamt þremur úr sendinefndinni í Jonestown en öðrum í hópnum var sagt að þeir yrðu að finna sér annan samastað yfir nóttina. Þau fóru því til Port Kaituma og gistu á litlu kaffihúsi.
Síðla morguns þann 18. nóvember, vaknaði Jim Jones og NBC fréttamennirnir réttu honum blaðið sem Vernon Gosney hafði látið þá fá. Jones brást illa við og sagði að þeir sem vildu fara myndu „ljúga“ og eyðileggja Jonestown. Jones og margir aðrir safnaðarmeðlimur litu á sig sem fjölskyldu sem hefði skyldu og rétt til þess að standa saman. Þá stigu tvær fjölskyldur fram og báðu um að verða fylgt út úr Jonestown með sendinefnd Ryans.
Jones gaf þeim leyfi til þess að fara ásamt að láta þau fá peninga og vegabréf. Jones sagði einnig að þau væru ávallt velkomin aftur til Jonestown. Þetta kvöld voru langar rökræður á svæðinu. Jones hafði frétt að fjölskyldurnar hefðu yfirgefið svæðið fótgangandi og var í uppnámi vegna þessara atburða.
Ofbeldi brýst út
breytaVegna þess að fleiri vildu yfirgefa Jonestown en gert hafði verið ráð fyrir og takmarkaðan sætafjölda í flugvélinni, ákvað Ryan að senda hóp á flugvöllinn, vera á svæðinu með þeim sem ekki kæmust með og bíða eftir öðru flugi.
Safnaðarmeðlimurinn Don Sly (viðurnefni „Ujara“) réðst á Ryan með hníf, að fyrirskipun Jones, á meðan Jones sjálfur horfði á og kippti sér lítið upp við atvikið. Tveir menn drógu Sly af Ryan og í átökunum slasaðist Sly og blóð hans slettist yfir Ryan. Þetta var ein af mörgum skipunum Jones þennan dag þar sem hann hafði fengið hliðholla meðlimi til að hefja róttækar aðgerðir gegn sendinefndinni án þess að aðrir hliðhollir meðlimir vissu af. Þetta orsakaði mikla ringulreið meðal meðlima. Þrátt fyrir að þingmaðurinn hafi ekki slasast alvarlega, gerði hann sér grein fyrir að sendinefndin og aðrir væru í mikilli hættu.
Stuttu áður en sendinefndin yfirgaf Jonestown heimtaði Larry Layton, hliðhollur meðlimur Peoples Temple, um að koma með. Þetta vakti grunsemdir hjá öðrum sem sagt höfðu skilið við Jones en Ryan og sendinefndin leiddu það hjá sér.
Sendinefnd Ryans og 16 fyrrverandi meðlimir Peoples Temple yfirgáfu Jonestown og héldu til Port Kaituma flugvallarins, þar sem tvær flugvélar skyldu flytja hópinn á brott. Áður en fyrri vélin tók á loft, tók Larry Layton upp byssu sem hann hafði falið og byrjaði að skjóta á farþegana. Hann særði Monicu Bagby og Vernon Gosney en var afvopnaður af Dale Parks.
Um sama leyti birtist pallbíll á flugvellinum, en í honum voru vopnaðir safnaðarmeðlimir og hófu að skjóta á sendinefndina og fyrrverandi meðlimi. Leo Ryan varð fyrir skoti og lést ásamt fjórum öðrum blaðamönnum. Nokkrar sekúndur af skothríðinni náðust á myndband af NBC myndatökumanninum Bob Brown, en vél hans hélt áfram að mynda eftir að hann hafði verið skotin til bana. Annarri flugvélinni tókst að hefja sig á loft og fljúga til Georgetown. Aðrir flúðu inn í frumskóginn sem umkringdi flugvöllinn.
Það tók marga klukkutíma fyrir þá 10 sem höfðu lent í skotárásinni að safnast saman og eyddu þau nóttinni á kaffihúsi í Port Kaituma. Flugvél frá yfirvöldum Gvæjana kom til að flytja burt særða morgunin eftir.
Fjöldamorð og sjálfsmorð
breytaÞað er nokkuð óljóst hvað gerðist í raun og veru í Jonestown að kvöldi 18. nóvember 1978. Fjölmiðlar hafa jafnan greint frá atvikinu sem fjöldasjálfsmorði en síðastliðin ár hafa komið upp hugtök eins og „morð-sjálfsmorð“ í tengslum við Jonestown. Þeir sem að trúa því að þetta hafi í raun og veru verið fjöldasjálfsmorð játa þó flestir að 287 börn hafi aldrei getað fallist á athafnirnar og voru þar af leiðandi myrt. Margir aðrir benda á sönnunargögn sem að sýna fram á það að allir 909 sem létust í Jonestown hafi í raun verið myrtir.
Jim Jones kallaði meðlimi á fund í Jonestown snemma kvölds. Áður en fundurinn hófst voru aðstoðarmenn byrjaðir að fylla ker með ávaxtadrykk sem innihélt valíum, Chloral hydrate og að öllum líkindum blásýru. Þegar fólk hafði safnast saman á fundinn tilkynnti Jones þeim að einn meðlimur Peoples Temple sem komist hafði undan með sendinefndinni myndi hefja skothríð í flugvélinni sem myndi valda því að hún myndi brotlenda í frumskóginum. Hann fullyrti að ef einhverjir eftirlifendur yrðu myndu þeir valda söfnuðinum skaða, „þeir munu misþyrma börnunum okkar, þeir munu misþyrma fólkinu hérna og þeir munu misþyrma eldri borgurum. Við getum ekki sætt okkur við slíkt og það eina sem þarf að gera er að taka sopa og fara að sofa. Það er það sem dauðinn er, svefn.“ Áður en morð-sjálfsmorðin fóru fram, rökræddi Jones við að minnsta kosti einn meðlim sem mótmælti ákvörðuninni harðlega. 43 mínútna segulbandsupptaka var skilin eftir á svæðinu og á spólunni er allt sem fram fór.
Börnunum var byrlað eitur fyrst og fjarlægðu starfsmenn börnin frá foreldrum sínum og létu þau standa í röð. Sumir foreldrar fóru með börnunum sínum. Eitrinu var sprautað í munn barnanna með plast sprautum. Sjónarvotturinn Stanley Clayton, sem aðstoðaði börnin er höfðu fengið eiturskammt, fullyrti að mörg börn höfðu veitt viðnám og þurfti að halda þeim niðri til að koma eitrinu í þau. Menn hafa notað þau rök að ástæðan fyrir að fullorðna fólkið í söfnuðinum hafi framið sjálfsmorð án mótmæla, hafi verið áfallið eftir að hafa séð á eftir 287 börnunum í dauðann.
Samkvæmt Clayton var eitrið mjög virkt og olli því að fólk lést á innan við fimm mínútum eftir að hafa tekið það inn. Clayton segir einnig að eftir að fólk hafði fengið eiturskammtinn hafi þeim verið skipað að leggjast niður meðfram göngupöllum svæðisins. Á segulbandsupptökunni má heyra „öskur“ margra og „angistargrát“ (orð Jones), bæði frá konum og börnum.
Eftirlifendur/sjónarvottar
breytaFjórir meðlimir sem átti að eitra fyrir tókst að lifa af. Þau voru:
- Grover Davis (79 ára), sem hafði slæma heyrn og missti því af tilkynningunni í hátalarakerfi svæðisins. Hún lagðist því ofan í skurð og þóttist vera látin.
- Hyacinth Thrash (76 ára), sem faldi sig undir rúminu sínu þegar hjúkrunarkonur komu inn í skálann hennar með eitur í glasi.
- Odell Rhodes (36 ára), kennari í Jonestown og handverksmaður sem hafði boðið sig fram til að sækja hlustunarpípu og faldi sig undir einni af byggingunum í Jonestown.
- Stanley Clayton (25 ára), mötuneytisstarfsmaður og frændi Huey Newton, plataði öryggisverði svæðisins og hljóp inn í frumskóginn.
Þrír aðrir meðlimur héldu því fram að þeim hafði verið úthlutað verkefni af Maria Katsaris, háttsettum meðlimi, og þar af leiðandi komist hjá dauðanum. Þetta voru bræðurnir Tim og Mike Carter (30 ára og 20 ára) og Mike Prokes (31 árs). Fengu þeir farangur sem innihélt hálfa milljón dollara ásamt skjölum og þeim sagt að færa Sovíeska sendiherranum í Georgetown sendinguna. Fljótlega eftir að hafa komist út af svæðinu fleygðu þeir peningunum og voru handteknir skömmu seinna.
Tveir lögfræðingar Jonestown voru einnig staddir á svæðinu þegar byrjað var að gefa fólki eiturblönduna. Þeir náðu þó að tala til vopnaða verði og komust út af svæðinu og héldu á leið til Port Kaituma.
Skýringin á dauða Jim Jones samkvæmt yfirvöldum í Gvæjana er sú að eftir að hafa lokið við að gefa öllum eiturblönduna, hafi nokkrir starfsmenn komið saman og skotið hvert annað í höfuðið með skammbyssu.
Heimild
breytaTenglar
breyta- http://jonestown.sdsu.edu/ Stór gagnagrunnur um Jonestown, styrktur af Trúarbragðadeild háskólans í San Diego.
- „Segulbands verkefni FBI“ Geymt 11 október 2007 í Wayback Machine Samantekt og afrit af yfir 900 segulbands upptökum sem fundust í Jonestown.
- „Hverjir létust?“ Geymt 11 október 2007 í Wayback Machine Listi yfir þá sem létust í Jonestown.
- „The Jonestown Death Tape (FBI No. Q 042)“ (18. nóvember 1978) Stafrænt eintak af síðustu segulbandsupptökunni frá Jonestown.
- „The Jonestown Massacre“ Geymt 18 apríl 2007 í Wayback Machine Jonestown málið á Crime Library heimasíðunni.
- „Jonestown massacre + 20: Questions linger“ Geymt 21 apríl 2007 í Wayback Machine CNN.com, 18. nóvember, 1998
- „Timeline: Road to tragedy in Jonestown“ Geymt 7 október 2007 í Wayback Machine CNN.com, 17. nóvember, 2003
- Heimildarmynd PBS um Jonestown Geymt 18 október 2007 í Wayback Machine Inniheldur meðal annars myndbandsbrot frá viðtölum við 2 af meðlimum Jonestown sem tókst að flýja.