Breiðamerkursandur

Breiðamerkursandur er stórt svæði á milli Suðursveitar og Öræfa þakið grófum sandi sem jöklar hafa rutt fram ásamt jökulám á svæðinu. Á milli jökuls og strandar var aðeins örmjótt haft þegar Breiðamerkurjökull gekk lengst fram um og upp úr 1880. Á sandinum eru miklir jökulruðningar, sem sýna hversu langt jökullinn náði er hann náði hámarki sínu. Þegar jökullinn stækkaði og gekk fram á litlu ísöld gróf hann djúpa dæld í jarðveginn. Í þeirri dæld skilur hann nú eftir sig Jökulsárlón sem stækkar ört samhliða bráðnun jökulsins. Jökulsárlón er eitt helsta kennileiti Breiðamerkursands en það er dýpsta stöðuvatn Íslands, 284 metrar (2009). Úr lóninu rennur Jökulsá á Breiðamerkursandi, fyrrum mikill farartálmi og hættuleg yfirferðar. Hún var brúuð árið 1967 en áður var ferja á ánni.

Horft yfir Breiðamerkursand

Á Breiðamerkursandi eru aðalvarpstöðvar skúms á Íslandi. Þar eru einnig heimkynni hreindýra.

Breiðá, bær Kára Sölmundarsonar og Hildigunnar Starkaðardóttur, sem frá er greint í Njálu, stóð vestarlega á sandinum. Þegar jökullinn gekk fram lagðist hann yfir bæjarstæðið og jörðina alla og er nú ekki vitað með fullri vissu hvar bærinn stóð.

Hluti Breiðamerkursands varð hluti af Vatnajökulsþjóðgarði árið 2017.

Breiðamerkursandur var fyrr á öldum töluvert breiðari en hann er nú því bæði hefur sjór brotið af honum og einnig náði jökullinn skemmra fram á sandinn. Þegar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson fóru um sandinn 1756 töldu þeir um eina danska mílu (7,5 km) milli jökuls og sjávar. Á næstu áratugum skreið jökullinn mjög fram og þegar Sveinn Pálsson fór um sandinn 1794 taldi hann aðeins um 2 km milli jökuls og sjávar