Ivan „Ivica“ Bek eða Yvan Beck (f. 29. október 1909 - d. 2. júní 1963) var knattspyrnumaður frá Serbíu. Hann var í keppnisliði Júgóslavíu á Ólympíuleikunum 1928 og fyrstu Heimsmeistarakeppninni árið 1930.

Ævi og ferill

breyta
 
Ivan Bek í landsliðsbúningnum á ÓL 1928.

Ivan Bek fæddist í Belgrað, sonur þýsks föður og tékkneskrar móður. Sextán ára að aldri gekk hann til liðs við BSK Belgrað þar sem hann skoraði 51 mark í 50 leikjum. Árið 1928 fluttist hann til Frakklands ar sem hann gekk til liðs við FC Sète. Hann komst í bikarúrslit með liði sínu þegar á fyrsta ári og varð svo bikarmeistari ári síðar eftir að hafa skorað tvö síðustu mörkin í 3:1 sigri gegn RC France. Árið 1934 varð hann tvöfaldur meistari með Sète, sem þar með varð fyrsta franska liðið til að ná þeim árangri.

Bek lék sinn fyrsta landsleik kornungur, árið 1927 og var í liði Júgóslavíu á Ólympíuleikunum í Amsterdam árið eftir sem féll úr leik strax í fyrstu umferð gegn Portúgal. Tveimur árum síðar var hann aðalmarkaskorari Júgóslava sem komust alla leið í undanúrslit fyrstu heimsmeistarakeppninnar í Úrúgvæ 1930. Þar skoraði hann seinna mark sinna manna í 2:1 sigri á Brasilíu og tvö af fjórum mörkum gegn Bólivíu.

Síðasti landsleikur Bek fyrir Júgóslavíu var á árinu 1931. Hann fékk síðar franskt ríkisfang og lék alls fimm leiki fyrir franska landsliðið á árunum 1935 til 1937.

Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar var Bek, sem þá hafði tekið sér nafnið Yvan Beck, virkur meðlimur í frönsku andspyrnuhreyfingunni. Hann starfaði sem hafnarverkamaður í Sète seinni hluta ævinnar og lést þar af völdum hjartaáfalls árið 1963.

Heimildir

breyta