Ingibjörg Eiríksdóttir af Danmörku

Ingibjörg Eiríksdóttir (um 1244 – 24./26. mars 1287) var dönsk konungsdóttir, drottning Noregs frá 1263 til 1280 og var valdamikil á ríkisstjórnarárum Eiríks sonar síns þótt hún væri ekki ríkisstjóri.

Ingibjörg var næstelsta dóttir Eiríks plógpenings Danakonungs og Juttu af Saxlandi. Hún var aðeins um sex ára að aldri þegar faðir hennar var drepin. Móðir hennar sneri aftur til Saxlands og giftist að nýju en Ingibjörg og systur hennar þrjár ólust að mestu leyti upp við hirð Kristófers 2. föðurbróður síns og Margrétar Sambiria drottningar. Þær voru erfingjar að víðáttumiklum lendum í Danmörku og því eftirsóttir kvenkostir.

Hákon gamli Noregskonungur hafði augastað á einhverri Plógpeningsdætra handa eina eftirlifandi syni sínum, Magnúsi. Sú elsta, Soffía, var þegar gift Valdimar Birgissyni Svíakonungi, og hafði Kristófer konungur komið því til leiðar skömmu fyrir dauða sinn 1259, þvert gegn vilja Margrétar drottningar. Hún var nú orðin ríkisstjóri og Hákon konungur sendi fulltrúa sína til að biðja um hönd næstelstu dótturinnar en Margrét hafði engan áhuga á að missa yfirráð á eignum fleiri Plógpeningsdætra og sendi Ingibjörgu í klaustur við Horsens.

Hákon sendi nýja sendinefnd sumarið 1261 en nú voru það sjö herskip og mörg hundruð manna lið undir stjórn Hákonar biskups af Ósló. Þeim gekk ekkert að tala drottningu til og fór þá Hákon biskup til Horsens, sótti heim klaustrið þar sem Ingibjörg var og bar fram bónorð fyrir hönd konungssonarins. Ingibjörgu hugnaðist ekki klausturlifnaðurinn fremur en yngri systrum hennar síðar og kaus fremur að vera drottning Noregs, en bað biskupinn að koma aftur seinna, þegar hún hefði undirbúið brottför sína. En á siglingunni norður eftir mættu Norðmennirnir sænskum flota undir merki Birgis jarls, föður Valdimars Svíakonungs og raunverulegs stjórnanda Svíþjóðar. Norðmennirnir höfðu rökstuddan grun um að hann væri einnig í bónorðsferð; hann var nýlega orðinn ekkjumaður og hafði látið í ljósi áhuga á að giftast Ingibjörgu, systur tengdadóttur sinnar. Þeir sneru því við, fóru aftur í klaustrið með alvæpni og sóttu Ingibjörgu og sigldu sem hraðast norður til Túnsbergs. Eftir nokkra hvíld þar var siglt áfram til Björgvinjar en ferðin gekk illa og tók þrjár vikur í stað einnar venjulega. Hún hitti þó loks eiginmann sinn tilvonandi og giftust þau með pompi og pragt 11. september 1261 og voru þegar á eftir krýnd konungur og drottning Noregs. Magnús fékk að vísu engin völd sem meðkonungur föður síns en erfði ríkið 16. desember 1263, þegar faðir hans dó í herför til Suðureyja.

Ingibjörg virðist ekki hafa haft nein afskipti af stjórn ríkisins meðan maður hennar lifði. Fátt er vitað um hana á þeim árum en árið 1263 skemmti Sturla Þórðarson henni með því að segja henni Huldar sögu, af tröllkerlingu nokkurri. Magnús konungur hafði verið Sturlu reiður en með sagnalist sinni tókst honum að vinna hylli drottningar og blíðka svo konunginn. Sagt er að hjónaband þeirra Ingibjargar og Magnúsar hafi verið gott.

Magnús dó 1280 og Eiríkur, eldri eftirlifandi sonur þeirra (tveir elstu synirnir dóu á barnsaldri) var þá á tólfta ári. Ingibjörg varð ekki ríkisstjóri en hafði þó töluverð áhrif á stjórn ríkisins og þau jukust eftir að Eiríkur var lýstur fullveðja 1283, enda var hann veikur stjórnandi og fákænn, virðist til dæmis aldrei hafa lært að lesa og skrifa. Helsti bandamaður hennar var Álfur Erlingsson yngri, frændi Magnúsar manns hennar. Eftir lát hennar lenti hann þegar í útistöðum við Hákon jarl, yngri son drottningar, sem gerði hann útlægan og lét taka hann af lífi 1290.

Eftir lát Magnúsar fór Ingibjörg að reyna að ná arfi sínum í Danmörku, sem aldrei hafði verið greiddur þeim systrum. Af því spannst langvinn deila sem ekki lauk fyrr en eftir lát Ingibjargar 1287.

Heimildir

breyta