Alþjóðasjóður um þróun landbúnaðar

(Endurbeint frá IFAD)

Alþjóðasjóður um þróun landbúnaðar (IFAD) (stundum nefndur Alþjóðaþróunarsjóður landbúnaðarins) er alþjóðleg fjármálastofnun og ein sérstofnana Sameinuðu þjóðanna, sem hefur það hlutverk að takast á við fátækt og hungur í dreifbýli þróunarlanda.

Alþjóðasjóður um þróun landbúnaðar
Merki samtakanna

Sérstofnun Sameinuðu þjóðanna
SkammstöfunIFAD (enska)
Stofnunsem alþjóðasamtök: 15. desember 1977
GerðMilliríkjastofnun
HöfuðstöðvarRóm, Ítalíu
Opinber tungumálArabíska, enska, franska, kínverska, rússneska og spænska
ForsetiGilbert Houngbo
MóðurfélagAllsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og
Efnahags- og félagsmálaráð Sameinuðu þjóðanna
Vefsíðaifad.org www.ifad.org

Sjóðurinn er eina fjölþjóðlega þróunarstofnunin sem einbeitir sér að dreifbýli og matvælaöryggi. Hann fjármagnar verkefni sem auka fæðuframleiðslu hjá fátækustu þróunarríkjunum sem búa við mestan fæðuskort. Höfuðstöðvar sjóðsins eru í Róm á Ítalíu.


Markmið

breyta

Fátækasti hluti heims býr í dreifbýli. Sjóðurinn styður við þá sem eru líklegastir til að vera afskiptir: fátækir smáframleiðendur, konur, ungmenni, frumbyggjar og aðrir viðkvæmir hópa. Fjárfesting sjóðsins í dreifbýli er ætlað að stuðla að velmegun, fæðuöryggi og seiglu.

Aukinn hagvöxtur landbúnaðar er talinn tvisvar til þrisvar sinnum árangursríkari í að draga úr fátækt og auka fæðuöryggi en vöxtur annarra atvinnugreina.[1]

Starfssemi

breyta

Fyrir utan stofnframlög er sjóðurinn rekinn fyrir frjáls framlög, tekjur af eignum og endurgreiðslur af lánum.[2]

Sjóðurinn veitir lán með lágum vöxtum og styrkjum til þróunarlanda. Áherslan er á lágtekjulönd og þau ríki sem skilgreind hafa verið sem lægri meðaltekjuríki, sérstaklega í Afríku sunnan Sahara, auk nokkurra annarra fátækra meðaltekjulanda.

Sjóðurinn beitir sér einnig fyrir samfjármögnun frá aðildarríkjum, þróunarlöndum og þátttakendum verkefnanna sjálfra. Frá stofnun árið 1977 hefur sjóðurinn veitt 22,4 milljarða Bandaríkjadala í lán og styrki og auk þess að hafa beitt sér fyrir viðbótar fjármögnun upp á 31 milljarð Bandaríkjadala í alþjóðlegri og innlendri samfjármögnun.[3] Þó þykir sjóðurinn lítill á mælikvarða alþjóðastofnana, en um leið sveigjanlegur og þekktur fyrir nýsköpun í verkefnavali.[4]

Sjóðurinn tekur í dag þátt í yfir 200 verkefnum í nær 100 ríkjum.[5] Þar er sjóðurinn að fjármagna og styrkja frumkvæði sem bæta land- og vatnsstjórnun, þróa innviði í dreifbýli, þjálfa og fræða bændur í nýtingu skilvirkari tækni, byggja upp þol gegn loftslagsbreytingum, auka aðgengi að mörkuðum og fleira.

Alþjóðasjóður um þróun landbúnaðar hefur 177 aðildarríki og vinnur í samstarfi við Samtök olíuútflutningsríkja (OPEC) og meðlimi Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).

Sjóðurinn þykir beita vönduðum vinnubrögðum og kemur sjóðurinn vel út í samanburði við aðrar þróunarstofnanir.[6]

Ísland og IFAD

breyta
 
Höfuðstöðvar Alþjóðasjóðs um þróun landbúnaðar í Róm á Ítalíu.

Ísland gerðist aðili að IFAD árið 2001. Á Íslandi er sjóðurinn á forræði utanríkisráðuneytisins, sem fer með mál er varða þróunarsamvinnu, friðargæslu og neyðarhjálp.[7]

Náið og reglulegt samráð er á milli Norðurlandanna á vettvangi sjóðsins og skiptast þau á um að leiða samráðið, í eitt ár í senn.[8] IFAD er ein af þremur alþjóðstofnunum í Róm sem Ísland á í samvinnu við á sviði þróunarsamvinnu en hinar tvær stofnanirnar eru Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) og Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP).[9]

Tenglar

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. IFAD (Janúar 2020). „IFAD at a glance“. IFAD. Sótt 28. mars 2021.
  2. Alþingi (Mars 2002). „Skýrsla utanríkisráðherra Halldórs Ásgrímssonar um alþjóðamál. (Lögð fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)“ (PDF). Alþingi. bls. 78. Sótt 28. mars 2021.
  3. IFAD (Janúar 2020). „IFAD at a glance“. IFAD. Sótt 28. mars 2021.
  4. Utanríkisráðuneytið (2. mars 2005). „STIKLUR um alþjóðamál“ (PDF). Utanríkisráðuneytið. Sótt 28. mars 2021.
  5. IFAD (Janúar 2020). „IFAD at a glance“. IFAD. Sótt 28. mars 2021.
  6. Utanríkisráðuneytið (2. mars 2005). „STIKLUR um alþjóðamál“ (PDF). Utanríkisráðuneytið. Sótt 28. mars 2021.
  7. Stjórnarráð Íslands (28. september 2011). „Forsetaúrskurður um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands 2011 nr. 125 28. September“. Stjórnarráð Íslands. Sótt 28. mars 2021.
  8. Utanríkisráðuneytið (2. mars 2005). „STIKLUR um alþjóðamál“ (PDF). Utanríkisráðuneytið. Sótt 28. mars 2021.
  9. Utanríkisráðuneytið: Heimsljós (15. nóvember 2019). „https://www.visir.is/g/2020102116d“. Utanríkisráðuneytið. Sótt 28. mars 2021.