Henrik Pontoppidan
Henrik Pontoppidan (24. júlí 1857 – 21. ágúst 1943) var danskur rithöfundur sem hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1917.
Ævi og störf
breytaHenrik Pontoppidan fæddist á Jótlandi, af grónum presta- og rithöfundaættum. Hann hóf nám í verkfræði en flosnaði upp úr því og gerðist blaðamaður og rithöfundur. Skrif hans einkenndust af róttæku uppgjöri við íhaldssemi og titlatog. Hann aðhylltist raunsæisstefnuna í bókmenntum og fjallaði einkum um líf blásnauðs alþýðufólks og gekk þannig fyrstur allra á hólm við glansmyndir danskra rithöfunda af fegurð sveitalífsins.
Veigamestu skáldsögur Pontoppidan komu út á árunum 1890-1920 og leituðust við að draga upp stórar myndir af dönsku þjóðfélagi í anda höfunda á borð við Balzac og Zola. Þeirra kunnust var Pétur heppni (danska: Lykke-Per) sem hafði sjálfsævisögulega undirtóna um ungan mann sem reynir að verða verkfræðingur til að slíta sig undan ægivaldi fjölskyldunnar en er að lokum brotinn niður og gefst að lokum upp.
Árið 1917 hlaut Pontoppidan Nóbelsverðlaunin ásamt landa sínum Karl Adolph Gjellerup, en verk hans hafa lifað öllu betur með dönsku þjóðinni en hins síðarnefnda. Clara Pontoppidan, ein frægasta kvikmyndaleikkona Dana fyrr og síðar, var bróðurdóttir Henriks Pontoppidan.
Fáeinar smásögur eftir Pontoppidan hafa verið þýddar á íslensku.