Helgi Sigurðsson (f. 1815)
Helgi Sigurðsson (2. ágúst 1815 – 13. ágúst 1888) var íslenskur prestur, myndlistarmaður, ljósmyndari, fræðimaður og áhugamaður um forngripi og þjóðminjar sem átti þátt í stofnun Forngripasafnsins ásamt Sigurði Guðmundssyni.
Æviferill
breytaHelgi var sonur Sigurðar Helgasonar, bónda og dannebrogsmanns á Ísleifsstöðum í Mýrasýslu, þar sem Helgi fæddist, Krossholti og Jörfa í Hnappadalssýslu, og konu hans Guðrúnar Þorkelsdóttur. Hann fór í Bessastaðaskóla tvítugur að aldri og útskrifaðst þaðan 1840. Þá fór hann til náms í Kaupnannahafnarháskóla og lagði fyrst stund á lögfræðinám en síðar læknisfræði, lauk því námi en tók ekki próf og kom heim 1846. Auk háskólanámsins lærði hann myndlist við Kunstakademiet í þrjú ár og eru ýmsar teikninga hans varðveittar. Það var hann sem teiknaði vangamynd af Jónasi Hallgrímssyni á líkbörunum, sem Sigurður Guðmundsson teiknaði síðar eftir. Hann varð líka fyrstur Íslendinga til að læra ljósmyndun með daguerreaðferð og fékkst nokkuð við myndatökur en engar myndir hans hafa varðveist.
Eftir að heim kom var Helgi bóndi á Jörfa til 1850 og fékkst einnig við fræðastörf og ritstörf, smíðar, lækningar og fleira en 1866 tók hann prestvígslu og varð fyrst prestur á Setbergi við Grundarfjörð en frá 1874 á Melum í Melasveit og var síðasti prestur þar. Þegar kirkjan var lögð niður 1883 fluttist hann á Akranes og dó þar. Hann er jarðaður í Akraneskirkjugarði
Hann giftist Valgerði Pálsdóttur og áttu þau fjögur börn en skildu eftir nokkurra ára hjónaband. Hann bjó síðar með Jóhönnu Guðmundsdóttur og eignuðust þau tvo syni en hún fór svo með þá til Vesturheims 1883.
Forngripasöfnun
breytaHelgi var mikill áhugamaður um fornfræði og fór eitthvað að safna fornum munum eftir að hann kom heim frá Kaupmannahöfn. Eftir að Sigurður málari skrifaði greinina Hugvekja til Íslendinga í Þjóðólf 1862 og hvatti til stofnunar forngripasafns reið Helgi á vaðið og gaf fimmtán forngripi sem hann átti til safnsins í janúar 1863 og voru það, ásamt haugfé úr kumli í Baldursheimi í Mývatnssveit, fyrstu munirnir sem Forngripasafnið eignaðist en það var stofnað 24. febrúar 1863.
Eftir að Helgi kom að Melum jókst forngripasafn hans til muna og safnaði hann þar á þriðja hundrað gripa og mun hafa ætlað þá Forngripasafninu en hann vildi þó fá einhverja greiðslu fyrir, enda hafði hann keypt marga munina fyrir eigið fé og lagt mikið á sig til að afla þeirra. En þar strandaði á því að Sigurður Vigfússon, sem þá sá um Forngripasafnið, taldi munina ekki nógu merkilega eins og fram kemur í bréfum sem hann skrifaði stiftsyfirvöldum og fjárlaganefnd, þótt hann hefði raunar aldrei séð þá. Varð úr að safnið, yfir 250 gripir, var selt Nordiska museet í Stokkhólmi fyrir 800 krónur skömmu fyrir andlát Helga 1888. Munirnir komu aftur til Íslands ásamt öðrum munum úr Nordiska museet árið 2007.