Forngripasafnið var safn íslenskra forngripa sem síðar varð að Þjóðminjasafni Íslands. Það var stofnað árið 1863 til að íslenskir gripir yrðu varðveittir á Íslandi en ekki fluttir úr landi í erlend söfn.

Eftir að heiðin dys fannst nálægt Baldursheimi við Mývatn skrifaði Sigurður málari hugvekju í Þjóðólf 24. apríl 1862 um mikilvægi slíks safns til að skilja þjóðerni Íslendinga og sögu landsins. Hugvekja Sigurðar málara varð til þess að Helgi Sigurðsson sem síðar varð prestur á Setbergi við Grundarfjörð og Melum í Melasveit skrifaði bréf 8. janúar 1863 og gaf Íslandi 15 forngripi sem hann hafði safnað og sem hann vænti að gætu orðið fyrsti vísir til safns íslenskra fornminja. Stiftsyfirvöld fólu Jóni Árnasyni bókaverði við Stiftsbókasafnið í fyrstu tilsjón með safninu og seinna þeim Jóni og Sigurði málara saman. Voru þeir svo báðir umsjónarmenn safnsins þangað til Sigurður lést árið 1874.

Forngripasafnið var á lofti Dómkirkjunnar þangað til viðgerð Dómkirkjunar hófst í apríl 1879 en þá var það flutt til geymslu í borgarastofu í Hegningarhúsinu. Þar var safnið geymt þar til það var flutt í Alþingishúsið 1881.

Sigurður skrifaði Jóni Sigurðssyni bréf 7. apríl 1870 þar sem hann lýsti aðstöðu safnsins á Dómkirkjuloftinu svona:

„ . . . nú erum við búnir að byggja herbergi fyrir það frammi á kirkjuloftinu, sem er 9 áln. á lengd, c. 8 áln. á breidd og c. 5-1/2 á hæð. Því er skipt í þrennt; í stærsta herberginu eru hengd upp gömul tjöld allt í kring að ofan(reflar) og tjald þar í niður frá; þar eru settar upp 2 gamlar stoðir, 5 álna langar, allar útskornar; þar er gamli stóllinn á milli; þar eru og gamlir skápar og margt inventarium, kirkjumerkið, útskorið dyratré og þar yfir tvö ljón, sem halda merki milli sín, hurð 3 áln. 16" á hæð, með fornum lömum, sem kvíslast um alla hurðina, hurðarhringurinn silfursmeltur og platan undir honum og kringum skráargatið. Þegar maður sér þetta sett upp í reglu, þá finnst mér, að maður hafi miklu glöggvari hugmynd um okkar gömlu húsakynni en ég hef áður haft. - Í næsta herbergi er sett upp gamalt rúm með rekkjurefli og ábreiðu yfir; þar hjá standa hillur, alls konar áhöld, kniplskrín, kistlar, treflastokkar, treflaöskjur, spónastokkar etc. Þar á að koma stór skápur með búningum frá 18. öld. - Í þriðja herberginu er mest af ýmsu smávegis, vopn og þess konar; ennþá hefi eg vegna plássleysis orðið að láta púltin standa hér og þar, sem ég hefi bezt getað.“

Sigurður Vigfússon gullsmiður (Sigurður fornfræðingur) kom til starfa við safnið 1878. Sigurður fornfræðingur annaðist svo Forngripasafnið einn frá 1882 til 1892.

Tengt efni

breyta

Heimild

breyta