Helgafell (bókaforlag)
Helgafell var bókaútgáfa sem starfaði á árunum 1942 – 1985 en sameinaðist þá bókaútgáfunni Vöku í útgáfufyrirtæki sem hlaut nafnið Vaka-Helgafell og er nú hluti af Forlaginu. Helgafell var lengi ein umsvifamesta bókaútgáfa landsins og gaf út verk ýmissa helstu rithöfunda þjóðarinnar, þar á meðal Halldórs Laxness.
Ragnar Jónsson í Smára stofnaði ásamt Kristni E. Andréssyni bókaútgáfuna Heimskringlu árið 1934 og stóð Heimskringla að stofnun Máls og menningar 1937 ásamt Félagi byltingarsinnaðra rithöfunda. Heimskringla hélt þó áfram starfsemi og gaf meðal annars út Heimsljós Halldórs Laxness í fjórum bindum á árunum 1937 – 1940. Árið 1940 yfirtók Ragnar Heimskringlu og hóf bókaútgáfu á eigin vegum, fyrst undir nafni Víkingsútgáfunnar en árið 1942 stofnaði hann Helgafell í því skyni að gefa út vandaðar bækur.[1]
Fyrsta verkefni Helgafells var raunar útgáfa á samnefndu tímariti með áherslu á bókmenntir og listir. Það kom fyrst út 20. mars 1942 og voru ritstjórar þess skáldin Magnús Ásgeirsson og Tómas Guðmundsson. Tímaritið Helgafell þótti mjög vandað og hlaut það góðar móttökur. Það kom út til ársins 1946.[2]
Um haustið hóf Helgafell svo bókaútgáfu og voru fyrstu bækurnar heildarútgáfa á verkum Jóns Thoroddsen, viðhafnarútgáfa í skinnbandi.[3] Vandað var til frágangs margra útgáfubóka forlagsins og meðal annars voru gefnar út margar listaverkabækur. Margir af helstu rithöfundum landsins voru gefnir út af Helgafelli, þar á meðal þeir Gunnar Gunnarsson, Þórbergur Þórðarson og Davíð Stefánsson, að ógleymdum Halldóri Laxness, en Ragnar gaf út allar bækur hans sem út komu á eftir Heimsljósi og er Vaka-Helgafell enn útgefandi verka Halldórs.
Með stofnun Helgafells urðu ákveðin tímamót í bókaútgáfu á Íslandi þar sem að henni var staðið með meiri myndarskap en áður hafði þekkst, upplög bóka voru stærri og ritlaun sem höfundar fengu greidd mun hærri en áður hafði þekkst. Ragnar sóttist líka eftir að gefa út bækur ungra og efnilegra rithöfunda og styrkti þá oft til ritstarfa.[4]
Útgáfan bryddaði líka upp á ýmsum nýjungum, gaf meðal annars út Íslendingasögur með nútímastafsetningu og varð sú útgáfa mjög umdeild.[5] Jafnframt var Helgafell á sjötta og sjöunda áratugnum sú bókaútgafa sem einna best sinnti íslenskum samtímabókmenntum. Úr því dró þó smátt og smátt og þegar Ólafur Ragnarsson í Vöku keypti Helgafell 1985 og sameinaði útgáfurnar í Vöku-Helgafell lá verðmæti Helgafells fyrst og fremst í útgáfurétti á verkum margra virtra höfunda.
Tilvísanir
breyta- ↑ „Í hringekju sögunnar“. Gagnasafn Morgunblaðsins, skoðað 25. apríl 2011.
- ↑ „Nýtt tímarit hefur göngu sína“. Vísir, 20. mars 1942.
- ↑ „Ný bókaútgáfa“[óvirkur tengill]. Fálkinn, 44. tbl. 1942.
- ↑ „Ragnar í Smára - 90 ár frá fæðingu hans“. Gagnasafn Morgunblaðsins, skoðað 25. apríl 2011.
- ↑ „Í hringekju sögunnar“. Gagnasafn Morgunblaðsins, skoðað 25. apríl 2011.