Gunnar Gunnarsson (18. maí 188921. nóvember 1975) var einn helsti rithöfundur Íslendinga á 20. öld. Hann var á tímabili meðal mest lesnu rithöfunda í Danmörku og Þýskalandi.

Gunnar Gunnarsson

Æviágrip breyta

Gunnar var bóndasonur frá Valþjófsstað í Fljótsdal. Hann fluttist að Ljótsstöðum í Vopnafirði með foreldrum sínum vorið 1896 og bjó þar til 18 ára aldurs. Móðir Gunnars lést árið 1897 þegar hann var aðeins átta ára. Dauði móðurinnar hafði afdrifarík áhrif á Gunnar og hefur af mörgum fræðimönnum verið talinn lykillinn að ævi hans og verkum.

Gunnar byrjaði ungur að skrifa kvæði og smásögur, en 17 ára gamall gaf hann út sínar fyrstu bækur, ljóðakverin Móðurminningu og Vorljóð. Honum reyndist ómögulegt að mennta sig á hefðbundinn hátt sökum fátæktar, en árið 1907 innritaðist hann í lýðháskólann í Askov á Jótlandi í Danmörku, þar sem hann stundaði nám í tvö ár. Þar tók hann þá ákvörðun að verða rithöfundur og ákvað jafnframt að skrifa á dönsku til þess að geta höfðað til stærri hóps lesenda. Haustið 1909 fluttist hann til Árósa þar sem hann bjó um veturinn og reyndi að framfleyta sér með því að selja blöðum og tímaritum ljóð og smásögur auk þess sem hann hélt fyrirlestra um Ísland í ungmennafélögum í nágrenninu.

Árið 1910 fluttist Gunnar til Kaupmannahafnar. Eftir tvö erfið ár gaf hann út fyrsta bindi Sögu Borgarættarinnar (d. Af Borgslægtens Historie), og náði þá að koma sér á kortið sem rithöfundur. Sagan kom út í fjórum bindum næstu þrjú árin. Fyrstu tvö bindin fengu fremur dræmar viðtökur og seldust lítið en með þriðja bindinu, Gesti eineygða (Gæst den enöjede) sló Gunnar í gegn. Sagan var gefin út í endurskoðaðri heildarútgáfu árið 1915 og seldist upp frá því jafnt og þétt, alls hefur hún komið út í yfir 120.000 eintökum á dönsku.

Fyrri heimsstyrjöldin fyllti Gunnar bölsýni sem endurspeglast í skáldsögum hans frá þeim tíma, en á árunum 1920 til 1940 gaf hann út fjölmargar ritgerðir um samfélag, félagsleg vandamál og sameiningu Norðurlanda. Hann flutti fjölmarga fyrirlestra á Norðurlöndum og í Þýskalandi, en hluti af ritgerðum hans var gefinn út í bókinni Det Nordiske rige.

Árið 1939 flutti hann aftur til Íslands eftir að hafa fest kaup á jörðinni Skriðuklaustri í Fljótsdal árið áður. Þar lét hann byggja mikið hús, sem enn stendur og er í dag fjölsótt safn til minningar um hann. Árið 1940, meðan Gunnar var í Þýskalandi vegna fyrirlestraraðar sem hann flutti þar í landi, átti hann fund með kanslara Þýskalands, Hitler. Gunnar mun vera eini Íslendingurinn sem átti fund með Hitler. Árið 1948 fluttist hann til Reykjavíkur þar sem hann hófst handa við að þýða sín eigin rit og hafði lokið því skömmu áður en hann lést árið 1975.

Bækur hans hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál, og var hann um tíma nefndur í tengslum við Nóbelsverðlaunin, en hann hreppti þau ekki. Þekktustu verk Gunnars auk Borgarættarinnar eru Fjallkirkjan, Aðventa, Svartfugl og Vikivaki. Hann var mjög hrifinn af Íslendingasögum, en hann þýddi Grettis sögu Ásmundarsonar á dönsku og gaf hana út þar í landi og skrifaði skáldsöguna Fóstbræður um samskipti landnámsmannanna Ingólfs Arnarsonar og Hjörleifs Hróðmarssonar.

Árið 1911 gaf Gunnar út ljóðasafnið Digte, sem tileinkað var ástinni í lífi hans og lífsförunauti, Franziscu Antoniu Josephine Jörgensen (4. apríl 1891) frá Fredericia á Jótlandi. Faðir hennar var járnsmiður en móðir hennar af bæheimskum aðalsættum. Þau gengu í hjónaband þann 20. ágúst 1912. Hún dó tæplega ári á eftir honum. Þau voru bæði jarðsett í kirkjugarðinum í Viðey, en kirkjugarðinn þar töldu þau jafnhelgan lúterskum mönnum og kaþólskum - Gunnar var lúterskur, en Franzisca var kaþólsk.

Gunnarsstofnun breyta

Árið 1997 var stofnun komið á fót um arfleifð Gunnars Gunnarssonar, sem er rekin frá Skriðuklaustri. Hlutverk Gunnarsstofnunar er tilgreint í reglum hennar og lýtur fyrst og fremst að því að leggja rækt við bókmenntir með áherslu á ritverk og ævi Gunnars Gunnarssonar og reka dvalarstað fyrir lista og fræðimenn. Einnig á stofnunin að stuðla að atvinnuþróun á Austurlandi.

Íslenska ríkið fékk Skriðuklaustur að gjöf frá hjónunum með gjafabréfi dagsett 11. desember 1948 .[1]

Stofnunin hefur haldið ýmsar sýningar, t.d. var sýning um hreindýr og hreindýraveiðar árið 2001, árið 2002 var haustsýning um útilegumenn og útlaga. Sumarið 2002 vann Gunnarsstofnun að gerð margmiðlunardisks um íslensk miðaldaklaustur ásamt nokkrum öðrum fyrirtækjum og stofnunum.

Fornleifarannsókn hófst í júní 2002 á þeim stað er munkaklaustur stóð að Skriðu 1493-1552 og lauk henni 2012.[2]

Nóbelsverðlaun breyta

Gunnar Gunnarsson var fjórum sinnum tilnefndur til Nóbelsverðlauna í bókmenntum. Alfred Noreen, prófessor við Uppsalaháskóla, tilnefndi hann árin 1918, 1921 og 1922, en Gunnar þótti, að mati Nóbelsnefndarinnar, ekki hafa náð nægum þroska sem höfundur til að hljóta verðlaunin.[3]

Hann var aftur tilnefndur árið 1955, en hlaut verðlaunin ekki, þess í stað hlaut Halldór Laxness þau.[4]

Útgefin verk breyta

  • Vorljóð - 1906
  • Móðurminning - 1906
  • Sögur - 1912
  • Ormarr Örlygsson - 1915
  • Danska frúin á Hofi - 1915
  • Vargur í véum - 1917
  • Ströndin - 1917
  • Gestur eineygði - 1918
  • Konungssonur - 1918
  • Örninn ungi - 1918
  • Fóstbræður - 1919
  • Drengurinn - 1920
  • Sælir eru einfaldir - 1920
  • Dýrið með dýrðarljómann - 1922
  • Det Nordiske rige - 1927
  • Svartfugl - 1929
  • Aðventa - 1939
  • Heiðaharmur - 1940
  • Skip heiðríkjunnar - 1941
  • Kirkjan á fjallinu I-III - 1941-1943
  • Nótt og draumur - 1942
  • Óreyndur ferðalangur - 1943
  • Siðmenning og siðspilling - 1943
  • Fljótsdalshérað - 1944
  • Árbók 45 - 1945
  • Árbók 46-7 - 1948
  • Frá Blindhúsum - 1948
  • Jón Arason - 1948
  • Vikivaki - 1948
  • Hvítikristur - 1950
  • Jörð - 1950
  • Fjallkirkjan - 1951
  • Dimmufjöll - 1951
  • Sálumessa - 1952
  • Vestræn menning og komúnismi - 1954
  • Brimhenda - 1954
  • Fjandvinir - 1954
  • Glaðnastaðir og nágrenni - 1956
  • Grámann - 1957
  • Bragðarefirnir - 1959
  • Fjórtán sögur - 1959
  • Leikrit - 1959
  • Lystisemdir veraldarinnar - 1962
  • Fimm fræknisögur - 1976

Tilvísanir breyta

  1. „Gjafabréf Franziscu og Gunnars Gunnarssonar fyrir Skriðuklaustri í Fljótsdal, Norður-Múlasýslu“. Sótt 25. apríl 2007.
  2. „Skriðuklaustur – Híbýli helgra manna“. Sótt 16. nóvember 2008.
  3. Halldór Guðmundsson (2006). Skáldalíf. JPV. ISBN 978-9979-798-06-4.
  4. „Gunnar Gunnarsson og Nóbelsverðlaunin“. www.mbl.is. Sótt 28. desember 2020.

Heimildir breyta

Tenglar breyta

Verk Gunnars á netinu