Helga Sigurðardóttir (f. um 1485)

Helga Sigurðardóttir (f. um 1485) var íslensk hefðarkona á 16. öld, fylgikona Jóns Arasonar biskups.

Helga var dóttir Sigurðar Sveinbjarnarsonar, sem var prestur og officialis í Múla í Aðaldal, sonur Barna-Sveinbjarnar Þórðarsonar prests í Múla. Móðir hennar er óþekkt en bróðir hennar var Laga-Auðunn Sigurðsson, bóndi og lögréttumaður á Héðinshöfða og í Garði í Aðaldal.

Helga átti fyrst barn með Ólafi Daðasyni, staðarhaldara á Helgastöðum í Reykjadal og var það Þóra, sem giftist Tómasi Eiríkssyni ráðsmanni á Hólum og síðar presti á Mælifelli í Skagafirði og seinast ábóta á Munkaþverá.

Helga gerðist síðan fylgikona Jóns Arasonar, sem fyrst var prestur á Helgastöðum og síðan á Hrafnagili, þá Hólaráðsmaður og loks biskup á Hólum. Þau áttu að minnsta kosti níu börn saman en sex komust upp, Magnús, Björn, Helga, Ari, Þórunn og Sigurður.

Vorið 1551, eftir að Jón var höggvinn í Skálholti ásamt þeim Birni og Ara, komu dönsk herskip til landsins og tóku land á Oddeyri. Var þeim ætlað að bæla niður alla mótspyrnu og taka meðal annars Hólastól í sína umsjá. Þegar fregnir af ferðum þeirra bárust til Hóla fór Helga í felur. Hún leyndist fyrst á Vindárdal í Blönduhlíðarfjöllum í mosalituðu tjaldi en það var svo talið of nærri Hólum og var tjaldið þá flutt í hlíðar Glóðafeykis í Blönduhlíð og þar var Helga að sögn lungann úr sumrinu ásamt Guðrúnu Magnúsdóttur, sonardóttur sinni.

Helga virðist hafa verið mikil hannyrðakona og í kvæði eftir Ólaf Tómasson dótturson hennar segir hann að Helga hafi verið rómuð bæði fyrir fegurð og hannyrðir:

... sú Helga heita réð;
af flestum kvinnum frægðir bar,
fegurð og handnirð með,
á Ísa láð þá öngri var
auðgrund meira léð.

Í samningi sem Helga gerði árið 1526 við Hólastól um próventu sína segir meðal annars að Helga skuli vinna að hannyrðum fyrir Hóladómkirkju á hverju ári meðan hún sé til fær.

Heimildir

breyta
  • „Hannyrðir Helgu Sigurðardóttur? Árbók hins íslenzka fornleifafélags, 79. árgangur 1976“.