Johann "Hans" Krankl (f. 14. febrúar 1953) er austurrískur fyrrum knattspyrnumaður og þjálfari.

Ævi og keppnisferill

breyta

Hans Krankl fæddist í Vínarborg og hóf atvinnuferil sinn hjá Rapid Vín. Hann varð markakóngur Evrópu árið 1978, auk þess að fara fyrir austurríska landsliðinu á HM 1978 sem vakti athygli FC Barcelona. Hann var á mála hjá katalónska stórliðinu næstu þrjú árin, en sneri því næst aftur til heimalandsins þar sem hann lék með ýmsum liðum til ársins 1989.

Á meðan á dvölinni hjá Barcelona stóð varð Krankl markakóngur í La Liga, vann spænsku bikarkeppnina og Evrópukeppni bikarhafa. Síðar átti hann eftir að keppa til úrslita í sömu keppni með Rapid Vín, sem tapaði fyrir Everton árið 1985. Hann var fimm sinnum valinn knattspyrnumaður ársins í Austurríki.

Á árunum 1973-85 lék Hans Krankl 69 landsleiki og skoraði í þeim 34 mörk. Þar af voru sex í einum og sama leiknum gegn Möltu. Eftirminnilegasti landsleikurinn var þó gegn Vestur-Þjóðverjum á HM 1978, þar sem hann skoraði sigurmarkið og varð óðar að þjóðhetju.

Eftir að keppnisferlinum lauk sneri Krankl sér að þjálfun. Hann hefur stýrt fjölda félagsliða í Austurríki og Þýskalandi, auk austurríska landsliðsins.

Á níunda áratugnum reyndi Krankl fyrir sér á tónlistarsviðinu og átti nokkur vinsæl lög. Smellurinn Lonely Boy náði t.a.m. öðru sæti austurríska vinsældarlistans árið 1985.