Hannes Finnsson

(Endurbeint frá Hannes Finnsson biskup)

Hannes Finnsson (f. 8. maí 1739 í Reykholti í Borgarfirði– 4. ágúst 1796) var íslenskur biskup og fræðimaður. Var hann sonur prestshjónanna þar, séra Finns Jónssonar, sem síðar varð biskup í Skálholti, og Guðríðar Gísladóttur.

Hannes útskrifaðist aðeins 16 ára úr Skálholtsskóla vorið 1755 og hélt þegar um sumarið til guðfræðináms við Hafnarháskóla. Reyndi hann þar að auki að kynnast sem flestum greinum, einkum náttúruvísindum, þjóðhagfræði og stærðfræði, auk norrænna fræða. Náði hann einnig góðri kunnáttu í latínu, grísku, hebresku, frönsku og þýsku. Embættispróf í guðfræði tók hann 1763. Á þeim 12 árum, sem Hannes dvaldist samfleytt í Kaupmannahöfn, kynntist hann mörgum helstu fræðimönnum Danmerkur og velunnurum þeirra. Komst hann í einstaka aðstöðu til grúsks og fræðastarfa og nýtti hann sér það samviskusamlega.

1767 sneri Hannes heim í Skálholt til aðstoðar föður sínum við ýmis fræðistörf og var þar næstu 3 árin. 1770 hélt hann aftur til Kaupmannahafnar og dvaldi þar næstu 7 árin við störf í íslenskum fræðum, m.a. útgáfu á fornritum og þeirri miklu kirkjusögu, sem faðir hans hafði sett saman. Á þessum árum gerði hann ferð til Stokkhólms að skoða handrit og er ferðasagan til á prenti.

Hannes var vígður aðstoðarbiskup til Skálholts 1777 af Harboe Sjálandsbiskupi. Finnur biskup var farinn að eldast og vildi fá soninn sér til halds og trausts með það fyrir augum, að hann yrði síðar eftirmaður hans. Finnur lét af embætti árið 1785 og var Hannes þá einn biskup. Árið áður höfðu Suðurlandsskjálftar lagt Skálholtsstað meira og minna í rúst og var nú svo komið, að flytja átti biskupsstólinn til Reykjavíkur. Hannes keypti þá Skálholtsstað og fékk að sitja þar áfram sem hann og gerði til æviloka.

Hannes var tvígiftur. Fyrri kona hans var Þórunn Ólafsdóttir Stefánssonar stiftamtmanns en hún dó í bólunni 1786. Tveir synir þeirra dóu ungir. 1789 kvæntist hann Valgerði Jónsdóttur sýslumanns frá Móeiðarhvoli. Fjögur börn þeirra komust öll á legg og er af þeim komin Finsen-ættin (Hannes hafði kallað sig Finsen á Kaupmannahafnarárum sínum).

Á síðustu æviárunum skrifaði Hannes tvö merkustu rit sín: Um mannfækkun af hallærum á Íslandi og Kvöldvökur.

Hannes dó hinn 4. ágúst 1796 í Skálholti eftir skyndileg veikindi.

Tenglar

breyta
  • Stocksholms-Rella av Hannes Finnsson utgiven av Arvid Hj. Uggla, biografisk skiss av Jón Helgason. På svenska 1935 av Samfundet Sverige-Island. (Lars Hökerbergs Förlag)

Heimildir

breyta


Fyrirrennari:
Finnur Jónsson
Skálholtsbiskup
(1785 – 1796)
Eftirmaður:
Geir Vídalín