Hafnarstræti (Akureyri)

Hafnarstræti á Akureyri er gata sem nær frá Aðalstræti í Innbænum til Ráðhússtorgs í miðbænum. Reiturinn á milli Hafnarstrætis og Aðalstrætis í Innbænum er elsti hluti Akureyrarbæjar og hin raunverulega Akureyri sem bærinn heitir eftir en eyrin er nú horfin vegna landfyllinga. Þjóðvegurinn um bæinn lá um Hafnarstræti þangað til að Drottningarbraut og Glerárgata voru lagðar um fyllingar framan við brekkuna á 8. og 9. áratug 20. aldar. 1983 var gatan á milli Kaupvangsstrætis og Ráðhústorgs gerð að göngugötu en 1997 var gerð tilraun með það að hleypa bílaumferð á hana aftur að kröfu kaupmanna við götuna sem töldu það líklegt til þess að auka verslun í miðbænum. Bílaumferð var síðar leyfð til frambúðar í einstefnu til norðurs en þessi hluti götunnar er nú skilgreindur sem vistgata með 10 km hámarkshraða og forgangi gangandi vegfarenda, götunni er þó ávallt lokað þegar búist er við miklum mannfjölda í miðbænum.

Merk hús við götunaBreyta

Gatnamót Hafnarstrætis og Kaupvangsstrætis eru nefnd Kaupvangstorg, við það standa:

  • Hafnarstræti 87-89: Hótel KEA, byggt 1944.
  • Hafnarstræti 91-95: Skrifstofu- og verslunarhús sem byggt var af KEA og hýsti aðalskrifstofur og stórverslun þess í marga áratugi, byggt 1930
  • Hafnarstræti 92: Veitingahúsið Bautinn, byggt 1902.
  • Hafnarstræti 94: Hamborg, verslunarhús, byggt 1906

Norðar í hafnarstræti:

  • Hafnarstræti 96: París, verslunarhús, byggt 1913.
  • Hafnarstræti 98: Hótel Akureyri, verslunarhús sem til stóð að rífa en var friðað með ákvörðun menntamálaráðherra árið 2007, byggt 1923.