Hafliði Másson
Hafliði Másson (d. 1130) var íslenskur goðorðsmaður og höfðingi á 11. og 12. öld. Hann er einkum þekktur fyrir deilur sínar við Þorgils Oddason, (1080-1151) svo og fyrir að hafa ásamt öðrum látið færa lög íslenska þjóðveldisins, Grágás, í letur en fram að því höfðu lögin verið sögð upp á Alþingi.
Hafliði var sonur Más Húnröðarsonar goðorðsmanns á Breiðabólstað í Vesturhópi; voru þeir komnir í beinan karllegg af Ævari gamla Ketilssyni landnámsmanni og var goðorðið (Æverlingagoðorð) kennt við hann og ættin kölluð Æverlingar. Már faðir Hafliða var víðförull og er sagður hafa verið í Miklagarði um tíma og verið þar foringi Væringjasveitar.
Hafliði bjó á Breiðabólstað og var einn auðugasti og virtasti höfðingi landsins. Hann kemur lítið við sögu fyrr en nokkuð er komið fram á 12. öld, eða eftir að Bergþór Hrafnsson var kosinn lögsögumaður á Alþingi 1117: „Ok it fyrsta sumar, er hann sagði lög upp, var nýmæli þat gert, at um vetrinn eftir skyldi rita lögin at Hafliða Mássonar at umráði Bergþórs ok annarra vitra manna, ok skyldu þeir gera nýmæli þau öll, er þeim þætti þau betri en in fornu lög, ok skyldi þau segja upp it næsta sumar eftir ok þau öll haldast, er meiri hlutr manna mælti eigi í móti. Þá var ritaðr Vígslóði ok margt annat í lögum ok lesit upp um sumarit eftir í lögréttu, ok líkaði þat öllum vel.“
Var sú lagaskrá þessi nefnd Hafliðaskrá og átti hún að ráða ef skrám bæri ekki saman. Má telja víst að fyrst ákveðið var að skrá lögin á heimili hans hafi hann sjálfur þótt mjög lögfróður. Honum er lýst þannig í Þorgils sögu og Hafliða að hann hafi verið „bæði forvitri og góðgjarn og hinn mesti höfðingi“.
Deilur urðu á milli Hafliða og Þorgils Oddasonar á Staðarhóli í Saurbæ, sem þá hafði nýlega komist yfir goðorð. Deilurnar stigmögnuðust og urðu tilefni áverka og víga. Bæði Þorgils og Hafliði komu með fjölmennt lið til Alþingis árið 1120 þegar dæma átti í málinu og þegar gengið var til dóma tók Hafliði öxi sína með sér. Mikil mannþröng var við dóminn og sá Þorgils hvar öxi Hafliða kom upp úr þrönginni. Hann hjó þá til Hafliða. Lagið kom á öxarskaftið og sneið af löngutöng og hluta af tveimur öðrum fingrum Hafliða. Þorgils var dæmdur sekur en hélt uppteknum hætti og kom aftur til næsta þings með 800 menn, en Hafliði hafði 1200 menn með sér og leit út fyrir bardaga. Þorlákur Runólfsson biskup vildi sætta þá og bannaði Hafliða " ... að sitja og neita sættum en slíta friðinn." Gerð var sátt þannig að Hafliða var fengið sjálfdæmi um hve mikið fé hann skyldi fá fyrir áverkana. Hann dæmdi sjálfum sér mikið fé í skaðabætur, 240 hundruð sem var feiknamikið fé, samsvaraði 5760 dagsverkum um heyannir eða 240-320 kýrverðum. Þorgils greiddi þetta með hjálp vina sinna. Þá er Hafliði sagði upp vöxt fjárins þá svaraði Skafti Þórarinsson því sem frægast mun vera úr sögunni um Þorgils og Hafliða: „Dýr mundi Hafliði allur, ef svo skyldi hver limur,“ og hefur það verið haft sem máltæki (oft aðeins „Dýr mundi Hafliði allur“). Þorgils sagði hins vegar: "Gefi menn vel hljóð máli Hafliða því að hér hefir hvor okkar það er vel má una." Hafliði sagði: Nú sé ég það að þú vilt heilar sáttir okkar og skulum við betur við sjá deilunum héðan í frá." Og það efndu þeir því að þeir voru og ávallt einum megin að málum meðan þeir lifðu. Deilurnar höfðu þá staðið frá um 1115 en sáttin var gerð árið 1121.
Fyrri kona Hafliða var Þuríður Þórðardóttir, sem var dótturdóttir Snorra goða, og áttu þau tvo syni. Seinni kona hans var Rannveig Teitsdóttir margláta Ísleifssonar í Haukadal, systir Halls Teitssonar biskupsefnis. Þau áttu þrjár dætur.
Heimildir
breyta- „Konan á Breiðabólstað í Vesturhópi. Sunndagsblað Tímans, 19. ágúst 1962“.
- Sturlungasaga I, Svart á hvítu, Reykjavík 1988, Þorgilssaga og Hafliða á bls. 7-46
- Lúðvík Ingvarsson: Goðorð og goðorðsmenn 3. bindi, Egilsstaðir 1987, bls. 197-200 og 300.