Ævar gamli Ketilsson

Ævar Ketilsson hinn gamli var landnámsmaður í Austur-Húnavatnssýslu. Hann var sonur Ketils helluflaga og Þuríðar dóttur Haraldar gullskeggs, konungs úr Sogni.

Ævar fór í víking og síðan til Íslands og voru með honum synir hans laungetnir, Karli, Þorbjörn strjúgur og Þórður mikill, en Véfröður, sem var skilgetinn sonur Ævars, hélt víkingaferðum áfram og hugðist koma seinna. Ævar lenti skipi sínu í Blönduósi en þá var búið að nema allt land fyrir vestan Blöndu. Hann fór því upp með ánni og þegar hann kom þar sem heita Móbergsbrekkur stakk hann niður hárri stöng og helgaði Véfröði syni sínum þar land. Síðan nam hann Langadal allan frá Móbergi, hluta af Laxárdal og bjó í Ævarsskarði, sem margir telja að sé mynni Svartárdals.

Þegar Véfröður kom seinna til landsins lenti hann skipi sínu í Gönguskarðsárósi og gekk þaðan suður þar til hans hitti föður sinn, sem þekkti hann ekki, og glímdu þeir „svo að upp gengu stokkar allir í húsinu, áður Véfröður sagði til sín“. Hann bjó svo á Móbergi og er oftast talinn til landnámsmanna þótt faðir hans hafi numið landið fyrir hann. Aðrir synir Ævars fengu einnig bústaði í landnámi hans, Þorbjörn strjúgur á Strjúgsstöðum, Karli á Karlastöðum og Þórður á Mikilsstöðum. Þeir eru þó ekki taldir landnámsmenn.

Véfröður giftist Gunnhildi, dóttur Eiríks landnámsmanns í Goðdölum. Einn sona þeirra var Húnröður, faðir Más, föður Hafliða á Breiðabólstað. Þeir langfeðgar voru goðorðsmenn og kallaðist goðorð þeirra Æverlingagoðorð, kennt við Ævar gamla, og ættin Æverlingar.