Skagfirðingabók er tímarit um héraðssögu sem gefið er út af Sögufélagi Skagfirðinga. Skagfirðingabók kom fyrst út 1966 og hafa nú (2011) komið út 33 bindi á 45 árum.

Stofnendur Skagfirðingabókar voru: Kristmundur Bjarnason á Sjávarborg, Hannes Pétursson skáld og Sigurjón Björnsson prófessor. Upphaflegt nafn var Skagfirðingabók, Ársrit Sögufélags Skagfirðinga, en frá og með 7. bindi, 1975, varð titillinn: Skagfirðingabók, Rit Sögufélags Skagfirðinga.

Skagfirðingabók hefur eingöngu birt sögulegt eða sagnfræðilegt efni en ekki ljóð, fréttaannál úr héraði eða æviágrip látinna einstaklinga, eins og sum héraðsrit hafa gert. Í tímaritinu hefur birst gríðarmikið efni um skagfirska sögu. Skagfirðingabók kom út með sama sniði til ársins 2005 og höfðu þá komið út 30 bindi, með nafnaskrám í þriðja hverju bindi. Með 31. bindi, árið 2008, var brot bókarinnar stækkað lítillega, myndefni aukið og bókin bundin í harðspjöld.

Á heimasíðu Sögufélags Skagfirðinga er yfirlit um greinar sem birst hafa í Skagfirðingabók.

Tenglar

breyta