Safn

stofnun um varðveislu mikilvægra muna eða sögu
(Endurbeint frá Byggðasafn)

Safn er stofnun eða staður sem velur, rannsakar og hefur til sýnis efnisleg og óefnisleg ummerki mannsins og umhverfi hans. Starfssemin miðar að söfnun, skráningu, varðveislu, rannsóknum, sýningum og annarri miðlun.[1]

Mynd sem sýnir Minjasafnið á Akureyri, héraðs- og byggðasafn Eyfirðinga.
Minjasafnið á Akureyri er héraðs- og byggðasafn Eyfirðinga.
Mynd af Þjóðminjasafn Bretlands í London.
Þjóðminjasafn Bretlands í London er eitt þekktasta safn heims.
Mynd af Ríkissögusafni Rússa í Moskvu.
Ríkissögusafn Rússa á Rauða-Torginu í Moskvu

Skipulag og starfsemi safna hefur í gegnum aldirnar tekið ýmsum breytingum. Viðfangsefni þeirra eru mjög fjölbreytt, markmið þeirra einnig, sem og með hvaða hætti þau starfa og hvernig þeim er stjórnað. Mörg þjóðríki hafa skilgreint hvað safn er, í lagasetningum eða með stofnanalegu fyrirkomulagi.

Á Íslandi hefur hugtakið safn í almennri orðanotkun verið notað í víðtækari merkingu. Safnalög frá árinu 2011 ná til opinberra viðurkenndra safna ef frá eru talin bóka- og skjalasöfn enda gilda um þau ákvæði annarra laga. Söfn samkvæmt safnalögum eru taldar varanlegar stofnanir sem starfa í þágu almennings, eru opnar almenningi og ekki reknar í hagnaðarskyni.[2]


Söfn á Íslandi

breyta

  Lagt hefur verið til að eftirfarandi efnisgrein verði færð yfir í aðra grein undir nafninu Söfn á Íslandi. Ræddu málið á spjallsíðunni

Í almennri íslenskri orðanotkun er hugtakið safn notað í mun víðtækari merkingu en kveðið er á um í íslenskum lögunum um söfn. Í íslensku er sama orð, þ.e. safn, notað um það sem nefnist á ensku museum, collection og exhibition eða á dönsku museum, samling og udstilling.[3]

Á síðustu árum hefur söfnum hefur fjölgað hér á landi og fjöldi safnvísa, setra og sýninga hafa sprottið upp sem ekki uppfylla öll opinber skilyrði þess að teljast söfn, en vinna mörg hver gott starf á sínu sviði.[4]

Hugtakið safn skilgreint í safnalögum nr. 141/2011. Þau lög taka til safna í eigu ríkisins og til annarra viðurkenndra safna, ef frá eru talin bóka- og skjalasöfn enda gilda um þau ákvæði annarra laga. Í 3. gr. laganna segir að söfn séu: „varanlegar stofnanir sem starfa í þágu almennings og eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Þau skulu vera opin almenningi. Hlutverk safna er „að tryggja menningar- og náttúruarf Íslands, varpa ljósi á menningar-, náttúru- og listasögu landsins, styrkja safnkost og heimildasöfnun innan síns sérsviðs og gera safnkost sinn og heimildasöfn aðgengileg almenningi og fræðimönnum.“[5] [6]

Ennfremur segir í safnalögunum að söfn eigi hafa „að leiðarljósi að auka lífsgæði manna með því að efla skilning á þróun og stöðu menningar, lista, náttúru eða vísinda.“[7]

Ofangreind skilgreining er byggð á viðmiðum Alþjóðaráðs safna, ICOM. [8]

Safnalög kveða á um um viðurkenningu safna, þar sem slíkum söfnum er ætlað að gangast undir ýmis fagleg og rekstrarleg skilyrði.[9]

Þrjú höfuðsöfn á Íslandi

breyta
 
Listasafn Íslands í Reykjavík er eitt þriggja höfuðsafna Íslands.
 
Þjóðminjasafn Íslands er höfuðsafn íslenskra menningarminja.

Á Íslandi hefur löggjafinn ákveðið að í landinu séu þrjú höfuðsöfn, það er Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. Höfuðsöfnum er ætlað að vera ráðgefandi og stefnumótandi afl og vinna að samræmdri safnastefnu hvert á sínu sérsviði. [10][11]

Listasafni Íslands er höfuðsafn myndlistar og er ætlað að varpa ljósi á íslenska myndlist, sögu hennar og tengsl við myndlist annarra landa. Náttúruminjasafn Íslands er höfuðsafn náttúrufræða og hefur það hlutverk að varpa ljósi á náttúru Íslands, náttúrusögu landsins, nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvernd, auk þess að varpa ljósi á samspil manns og náttúru og á náttúru landsins í alþjóðlegu samhengi. Þjóðminjasafn Íslands er höfuðsafn menningarminja og hefur það hlutverk að varpa ljósi á íslenska menningu, sögu hennar og tengsl við menningarsögu umheimsins.

Safnaráð

breyta

Safnaráð, sem starfar samkvæmt safnalögum nr. 141/2011, er stjórnsýslunefnd opinber stofnun á fjárlögum og er meginhlutverk þess að hafa eftirlit með safnastarfsemi í landinu, vinna að stefnumörkun um safnastarf, fjalla um viðurkenningar safna og veita umsagnir um styrkumsóknir í safnasjóð.

Viðurkennd söfn á Íslandi

breyta
 
Frá Grasagarðinum í Reykjavík er viðurkennt sem lifandi safn íslenskra og erlendra plantna.
 
Frá Glaumbæjarsafni í Skagafirði, Áshús er til vinstri, torfbærinn fyrir miðju og Gilsstofa til hægri. Safnið er hluti af Byggðasafni Skagfirðinga.
 
Hvalasafnið á Húsavík er viðurkennt safn af safnaráði. Það er til húsa í gamla sláturhúsi Kaupfélags Þingeyinga.

Samkvæmt Safnalögum frá árinu 2011 þurfa söfn að fara í gegnum ákveðið ferli til að teljast til „viðurkenndra safna“. Þau þurfa að uppfylla ýmis skilyrði, svo sem vera í eigu opinberra aðila, sjálfseignarstofnunar, félags eða fyrirtækis sem tryggir safninu fjárhagsgrundvöll; ekki vera rekið í hagnaðarskyni; hafa sjálfstæðan fjárhag; og starfa eftir stofnskrá eða samþykkt sem birt er opinberlega. Enn fremur skal viðurkennt safn starfa í samræmi við skilmála safnaráðs um húsnæði, öryggismál, skráningarkerfi og faglega starfsemi; og hafa upplýsingar um safngripi aðgengilegar almenningi. Jafnframt skal slíkt safn starfa í samræmi við siðareglur Alþjóðaráðs safna (ICOM) og hafa forstöðumann með menntun á ábyrgðarsviði safnsins.[12]

Opinber viðurkenning á safni er forsenda þess að þau geti sótt um rekstrarstyrk úr safnasjóði sem rekinn er á vegum ríkisins.

Árið 2021 höfðu 46 söfn hlotið viðurkenningu safnaráðs:[13]


Tenglar

breyta
 
Frá Safnaeyjunni í Berlínarborg, Þýskalandi.


Tilvísanir

breyta
  1. Safnaráð. „Skilgreiningar“. Sótt 13. mars 2021.
  2. Safnaráð. „Skilgreiningar“. Sótt 13. mars 2021.
  3. Alþingi (30. mars 2011). „Frumvarp til safnalaga. (Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)“. Alþingi. Sótt 13. mars 2021.
  4. Alþingi (30. mars 2011). „Frumvarp til safnalaga. (Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)“. Alþingi. Sótt 13. mars 2021.
  5. Alþingi (2011). „Safnalög nr. 141/2011“. Alþingi. Sótt 13. mars 2021.
  6. Alþingi (30. mars 2011). „Frumvarp til safnalaga. (Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)“. Alþingi. Sótt 13. mars 2021.
  7. Alþingi (2011). „Safnalög nr. 141/2011“. Alþingi. Sótt 13. mars 2021.
  8. Alþingi (30. mars 2011). „Frumvarp til safnalaga. (Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)“. Alþingi. Sótt 13. mars 2021.
  9. Alþingi (30. mars 2011). „Frumvarp til safnalaga. (Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)“. Alþingi. Sótt 13. mars 2021.
  10. Alþingi (30. mars 2011). „Frumvarp til safnalaga. (Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)“. Alþingi. Sótt 13. mars 2021.
  11. Alþingi (2011). „Safnalög nr. 141/2011“. Alþingi. Sótt 13. mars 2021.
  12. Safnaráð. „Hvað er viðurkennt safn?“. Sótt 13. mars 2021.
  13. Safnaráð (2021). „Listi yfir viðurkennd söfn“. Sótt 13. mars.