Guttormur Sigbjarnarson

Guttormur Sigbjarnarson, jarðfræðingur, var fæddur í Rauðholti í Hjaltastaðaþinghá 23.6. 1928. Hann lést í Reykjavík 10.01 2017. Foreldrar hans voru Sigbjörn Sigurðsson og Jórunn Anna Guttormsdóttir bændur í Rauðholti.

Nám og störf breyta

Eftir barna- og gagnfræðaskólagöngu að Eiðum settist hann í MA og lauk þaðan stúdentsprófi 1952. Eftir það innritaðist hann í Hí og lauk þaðan BA-prófi 1961 samhliða kennslu í Gagnfræðaskóla Austurbæjar. Nokkrum árum síðar innritaðist hann í Óslóarháskóla og lauk þaðan cand. real-prófi í jarðfræði 1967 en hafði þá dvalið eitt ár við vatnafræðinám í Bandaríkjunum. Eftir heimkomuna réðst hann til Orkustofnunar sem sérfræðingur í vatnafarsrannsóknum. Síðar varð hann deildarstjóri við Jarðkönnunardeild Orkustofnunar. Samhliða rannsóknum sínum starfaði Guttormur sem stundakennari við MH og síðar jarðfræðiskor HÍ. Starfsferlinum lauk hann sem framkvæmdastjóri Hins íslenska náttúrufræðifélags 1991-1999.

Guttormur var virkur í kjarabaráttu náttúrufræðinga og var formaður Félags íslenskra náttúrufræðinga á fyrstu árum þess.

Rannsóknir breyta

Jarðfræðirannsóknir Guttorms Sigbjarnarsonar voru einkum á sviði vatnafars, neysluvatns, grunnvatnsfræða og kortlagningar. Hann gerði grundvallarrannsóknar á vatnafari Veiðivatna og Tungnáröræfa og gaf út vatnafarskort af svæðinu en þetta var fyrsta íslenska vatnafarskortið. Einnig liggja eftir han skrif um vatnafar Þingvallavatns, samstarfsmaður hans þar var Freysteinn Sigurðsson, jarðfræðingur. Á árunum í upp úr 1970 stýrði hann jarðfræðirannsóknum í Krepputungu og á Brúaröræfum og gaf út fyrsta nákvæma jarðfræðikortið af þeim slóðum ásamt með ítarlegri skýrslu sem jók mjög á þekkingu manna á þessum hluta öræfanna. Síðar skrifaði hann greinaflokk í Náttúrufræðinginn um aðdraganda og niðurstöður rannsóknanna og yfirlit um fyrri athuganir náttúrufræðinga á þessu svæði. Guttormur ritaði einnig um landmótun, ísaldarjarðfræði, hafís og uppblástur. Hann var ritstjóri bókarinnar Vatnið og landið, greinasafn um vatnafar og jarðfræði, sem út kom 1990.

Margt má lesa um Guttorm, ættir hans og æskuheimili í Rauðhyltingabók sem út kom 2005 í ritstjórn Sævars Sigbjarnarsonar frá Rauðholti.

Nokkrar greinar breyta

  • Hafís og hafstraumar. Í bókinni Hafís við Ísland 1968, bls 13-48
  • Afok og uppblástur: þættir úr gróðursögu Haukadalsheiðar. Náttúrufræðingurinn 39, 1969, 68-118
  • Alpajöklar og öldubrjótar. Í bókinni Eldur er í norðri, 1982, bls. 79-89
  • Hlaup og hlaupfarvegir. Í bókinni Vatnið og landið 1990, bls. 129-143
  • Norðan Vatnajökuls 1. Aðdragandi og skipulag jarðfræðikortlagningar. Náttúrufræðingurinn 63, bls. 109-124, 1993
  • Norðan Vatnajökuls 2. Jarðlagaskipan og jarðfræðikort. Náttúrufræðingurinn 63, bls. 201-207, 1993
  • Norðan Vatnajökuls 3. Eldstöðvar og hraun frá nútíma. Náttúrufræðingurinn 65, bls. 199-212, 1995
  • Grunnvatnið til Þingvallavatns. (Með Freysteini Sigurðssyni). Í bókinni Þingvallavatn. 2002, bls. 120-135