Freysteinn Sigurðsson

Freysteinn Sigurðsson jarðfræðingur (4. júní 194129. desember 2008) var einn helsti forystumaður íslenskra náttúrufræðinga um árabil og í fararbroddi í félagsmálum þeirra. Foreldrar hans voru Sigurður Ásgeirsson bóndi á Reykjum í Lundarreykjadal og kona hans Valgerður Magnúsdóttir kennari.

Námsferill breyta

Freysteinn lauk stúdentsprófi frá Laugarvatni 1959, þá nýorðinn 18 ára. Þá um haustið hélt hann til Þýskalands og hóf nám í jarðeðlisfræði við háskólann í Mainz (Johannes Gutenberg Universität). Þar var hann með hléum til 1963, því árið 1961 lenti hann í slysi sem setti umtalsvert strik í námsferilinn. Á árunum 1965-1975 lagði hann svo stund á jarðvísindi við háskólann í Kiel (Christian Albrechts Universität) og lauk þaðan diploma-prófi.

Störf breyta

Freysteinn Sigurðsson starfaði hjá Raforkumálastjóra og á Orkustofnun í áratugi. Strax árið 1958 var hann ráðinn sem aðstoðarmaður við mælingar og þar mun áhugi hans á jarðfræðum hafi kviknað. Á háskólaárunum var hann áfram sumarmaður við jarðhitarannsóknir og mælingar ár eftir. Að námi loknu 1975 varð hann fastráðinn starfsmaður á Orkustofnun. Viðfangsefni hans voru einkum tengd vatnajarðfræði, vatnafari, grunnvatni og neysluvatnsmálum. Fyrstu rannsóknarskýrslur Freysteins eru frá 1964.

Í maí 1982 var hann ráðinn deildarstjóri á Vatnsorkudeild (síðar Rannsóknarsvið) Orkustofnunar yfir jarðfræðikortlagningu. Þann 1. febrúar 1999 fór hann síðan á Auðlindadeild Orkustofnunar. Þar var ábyrgðarsvið hans hagnýt jarðefni.

Freysteinn lagði mikla stund á íslenska vatnajarðfræði. Um það skrifaði hann ótal skýrslur og greinargerðir og einnig fræðilegar ritgerðir í vísindarit. Einnig er hann höfundur að mörgum jarðfræði- og vatnafarskortum sem gefin voru út á vegum Orkustofnunar og fleiri Sérsvið hans var grunnvatn og lindir, uppruni vatnsins, rennslisleiðir neðanjarðar, rennslismagn og efnainnihald. Á seinni hluta starfsferils síns vann hann mikið að vatnsverndarmálum og lagði gjörva hönd á lagabálka um vatn og vatnsvernd. Hann íslenskaði fjölmörg heiti og hugtök í fræðum sínum, grunnhugtök vatnsverndarinnar, brunnsvæði, grannsvæði og fjarsvæði, eru t.d. frá honum runnin.

Freysteinn var sérstaklega heiðraður á norrænni ráðstefnu um neysluvatn á vegum Norðurlanda-deildar IWA (International Water Association), sem haldin var í Reykjavík sumarið 2006. Þá hlotnuðust honum verðlaunin „Pump Handle Award“ ársins 2006, sem veitt eru fyrir einstakt framlag í þágu betra og heilnæmara neysluvatns.

Freysteinn ritaði Árbók FÍ 2004, Borgarfjarðarhérað.

Félagsmál breyta

Freysteinn var baráttumaður fyrir hag og kjörum náttúrufræðinga sem og náttúruvernd. Hann var formaður Félags íslenskra náttúrufræðinga (FÍN) 1986-1988 og efldi félagið verulega í sinni tíð. Hann var formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags (HÍN) 1990-2001, og var kjörinn heiðursfélagi þess 2005. Freysteinn var einn af stofnendum Oddafélagsins og stjórnarmaður þar frá upphafi, stjórnarmaður í Landvernd til dauðadags. Einnig var hann stofnfélagi og driffjöður í Gildi heilagrar Barböru á Íslandi en hún er verndardýrlingur jarðfræðinga.

Einkahagir breyta

Freysteinn kvæntist Ingibjörgu Sveinsdóttur lyfjafræðingi þann 29. september 1962. Þau bjuggu lengst af á Kársnesbraut í Kópavogi.

Börn þeirra:

  • Sigurður, eðlisfræðinemi (1966-1997)
  • Gunnar, skógfræðingur (1970-1998)
  • Ragnhildur, landfræðingur (1975)