Lítið ungt stöfunarbarn

Lítið ungt stöfunarbarn eða Lijtið ungt Støfunar Barn, þó ei illa Stautandi, frá Hiardarhollti í Breidafiardar Daulum, audrum sijnum Jafningium sitt Støfunar Kver synandi, sem eptir fylgir, er íslenskt stafrófskver, hið fyrsta sem ekki var jafnframt kristindómskennslubók, heldur hafði þann megintilgang að auðvelda börnum lestrarnám. Höfundur þess var skáldið og fræðimaðurinn séra Gunnar Pálsson í Hjarðarholti og var kverið prentað í Hrappsey árið 1782.

Séra Gunnar þótti góður kennari eins og margir ættmenn hans og var skólameistari í Hólaskóla 1742-1753. Hann mun einnig hafa kennt fjölda barna lestur og í bréfi sem hann skrifaði tuttugu árum áður en kverið kom út talar hann nýjar aðferðir við lestrarkennslu, sem hann sé að gera tilraunir með. Hann taldi eldri stafrófskver ekki duga nægilega vel en fyrsta íslenska stafrófskverið, Eitt lítið stafrófskver fyrir börn og ungmenni, hafði komið út 1695 og einnig komu út stafrófskver 1745, 1773 og 1776, en þau voru öll jafnframt trúfræðikennslubækur.

Uppbygging kversins er mjög ólík eldri stafrófskverum og mun nútímalegri. Þar eru stafirnir meðal annars flokkaðir eftir því hvar og hvernig hljóð þeirra myndast, sem var algjör nýjung, og áhersla er lögð á að æfa helstu stafasambönd kerfisbundið. Auk venjulegra lesæfinga eru í kverinu málshættir, gátur og nokkrar vísur, þar á meðal Hani, krummi, hundur, svín.

Stafrófsvísurnar alkunnu A, B, C, D, E, F, G birtust í fyrsta sinn í kverinu og eru taldar eftir Gunnar. Þar eru einnig aðrar stafrófsvísur, minna þekktar:

A, B, C, D, E, F, G
upphaf stafrófs finnum,
H, I, K, L hygg ég sé,
haft þeim jafnt í minnum.

M, N, O, P og svo Q
R, S, T, U, (V) sjáðu,
X, Y, Z, Þ, Æ þú
þekk, og Ösins gáðu.

Heimildir

breyta
  • Gunnar Pálsson: Lítið ungt stöfunarbarn. Íslensk rit í frumgerð. Formáli eftir Gunnar Sveinsson. Iðunn, Reykjavík 1982.
  • „Lærdómsmaðurinn Gunnar Pálsson. Morgunblaðið 16. desember 2000. Úr gagnasafni mbl.is“.

Tenglar

breyta