Gulllax
Gulllax (fræðiheiti: Argentina silus) er fisktegund í Norður-Atlantshafi. Hann lifir á 100-1400 metra dýpi, yfirleitt miðsævis og á leir- og sandbotni. Hann hefur langan bol, stutta sterklega stirtlu og djúpsýldan sporð. Augun eru stór en kjafturinn lítill, hann hefur einn stuttan bakugga og veiðiugga á stirtlu. Gulllaxinn er gulllitaður á hliðunum, dökkur á baki og ljós á kviði. Hreistrið er mjög stórt en laust, og dettur því auðveldlega af þegar hann er veiddur í botnvörpu. Hann virðist því vera grár þegar hann hefur verið veiddur.
Gulllax | ||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Teikning af gulllaxi
| ||||||||||||||
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||
| ||||||||||||||
Tvínefni | ||||||||||||||
Argentina silus Ascanius, 1775 |
Heimkynni
breytaGulllax á heimkynni sín í Norður-Atlantshafi. Í Norðaustur-Atlantshafi er hann frá sunnanverðum Svalbarða í Barentshafi suður í Skagerrak og Norðursjó. Hann er algengur við Biskajaflóa, og vesturströnd Bretlandseyja og þaðan norður til Íslands og Færeyja. Í Norðvestur-Atlantshafi er hann við Grænland í litlum mæli, og frá Davissundi og suður til Georgsbanka við Bandaríkin.
Við Ísland hefur gulllax fundist allt í kringum landið en hann sést sjaldnar norðan- og austanlands. Helsta útbreiðslusvæði hans er frá Rósagarði undan Suðausturlandi vestur með landinu, allt vestur á Halamið og Djúpál.
Gulllax er miðsævis- og botnfiskur á leir- og sandbotni. Hann er algengastur á 300-600 m, en finnst á 100-1400 metra dýpi. Hann heldur sig við botn á daginn en syndir upp í sjó á nóttunni. Á veturna heldur hann sig á meira dýpi en kemur á grynnra vatn með vorinu.
Fæða
breytaAðalfæða gulllax eru helst smákrabbadýr eins og ljósáta og marflær en einnig pílormar, smokkfiskar, ýmsar marglyttu-, möttuldýra- kambhveljutegundir og smáfiskar.
Vöxtur og lífssaga
breytaGulllaxinn við Ísland hrygnir allt árið um kring en mest í maí til júlí, eða í nóvember til desember. Hrygningin virðist eiga sér stað víða á útbreiðslusvæðinu. Egg gulllaxins eru tiltölulega stór, 3-3,5 mm og er fjöldinn á bilinu 10.000-40.000 stk. Eggin eru djúpsviflæg og það eru seiðin einnig í fyrstu. Nýklakin eru þau um 7,5-8 mm, en þegar þau hafa fengið útlit fullvaxta gulllax eru þau um 60 mm að lengd.
Frá 6 ára aldri vaxa hrygnur heldur hraðar en hængar og er þessi munur orðinn um 2,5 cm við 18 ára aldur. Hrygnur eru því heldur stærri en hængar þegar þær verða kynþroska. Um 50% hænga verða kynþroska 36-37 cm langir en hrygnur 37-38 cm, sem svarar til þess að hængar verði kynþroska um 8 ára aldur en hrygnur um 9 ára. Hann vex tiltölulega hratt þangað til, en eftir það dregur úr vexti. Hrygnur virðast líka vera heldur langlífari en hængar. Þyngd er mjög svipuð hjá báðum kynjum við sömu lengd og vegur 41 cm langur fiskur að jafnaði um 0,5 kg og 50 cm langur fiskur um 1,0 kg.
Gulllaxinn getur orðið a.m.k. 25-30 ára gamall og kynþroska er náð þegar hann er 8-12 ára og um 36-40 cm langur. Hér við land hefur veiðst yfir 70 cm stór gulllax en í veiði er hann algengastur 38-50 cm, þ.e. 8-20 ára fiskur. Lengdardreifing er nokkuð mismunandi eftir svæðum, og oftast eru margir árgangar í aflanum. Nýliðun virðist nokkuð jöfn frá ári til árs, því einstaka árgangar skera sig ekki úr. Gulllaxinn við Ísland vex hraðar og verður stærri en gulllax á öðrum hafsvæðum.
Heimildir
breyta- Hafrannsóknarstofnun „Helstu nytjastofnar: Gullax“. Sótt 21. apríl 2020.
- Vilhelmína Vilhemlsdóttir (2000). Lífríki sjávar: Gulllax. Sótt þann 15. mars 2009 af Hafró.is.