Guðmundur Franklín Jónsson

Guðmundur Franklín Jónsson (fæddur 31. október 1963) er íslenskur viðskiptamaður og fyrrum stjórnmálamaður. Hann er menntaður í viðskipta- og hagfræði [1] og hefur meðal annars starfað sem verðbréfamiðlari í Bandaríkjunum og sem hótelstjóri í Danmörku. Hann er meðal annars andsnúinn þriðja orkupakkanum og Evrópusambandinu.

Guðmundur stofnaði stjórnmálaflokkinn Hægri grænir árið 2010 sem að bauð fram í alþingiskosningum 2013 og hlaut 1.7% fylgi. Þó var hann ekki kjörgengur vegna búsetu erlendis en var samt formaður flokksins.

Guðmundur Franklín gaf kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir alþingiskosningarnar árið 2016 en komst ekki á lista.[2]

Þann 20. mars 2016 tilkynnti Guðmundur Franklín að hann ætlaði að bjóða sig fram í forsetakosningunum 2016 en hann náði ekki tilskildum meðmælafjölda. Þann 23. apríl 2020 ákvað hann að bjóða sig fram til forseta í forsetakosningunum 2020 og var hann einn í framboði á móti sitjandi forseta, Guðna Th. Jóhannessyni. Guðmundur Franklín hlaut 7,6% prósent atkvæða á meðan mótframbjóðandi hans hlaut 89,4% atkvæða.

Guðmundur tilkynnti þann 14. október 2020 að hann hyggðist gefa kost á sér í alþingiskosningum 2021 undir formerkjum nýs flokks, Frjálslynda lýðræðisflokksins.[3] Flokkur bauð fram í öllum sex kjördæmum og var Guðmundur Franklín formaður flokksins og oddviti í Reykjavíkurkjördæmi norður. Flokkurinn hlaut einungis 0,4% greiddra atkvæða og daginn eftir kosningarnar ákvað Guðmundur Franklín að hætta öllum afskiptum af stjórnmálum.

Tilvísanir

breyta
  1. Ævintýramaðurinn sem vill verða forseti ÍslandsVísir. skoðað, 26. maí 2020
  2. Guðmundur Franklín í prófkjör Ruv.is, skoðað 26. maí 2020
  3. Sunna Kristín Hilmarsdóttir (14. október 2020). „Frjáls­lyndi lýð­ræðis­flokkurinn býður fram til Al­þingis“. Vísir. Sótt 14. október 2020.