Gregoríus 15.

(Endurbeint frá Gregor 15.)

Gregoríus 15. (9. janúar 15548. júlí 1623) hét upphaflega Alessandro Ludovisi og var páfi frá 9. febrúar 1621 til dauðadags.

Gregoríus 15.

Alessandro var sonur Pompeo Ludovisi greifa í Bologna. Hann lærði í jesúítaskólanum Collegio Romano í Róm og síðan í Bologna-háskóla til að fá gráðu bæði í kirkjurétti og rómarrétti. Hann hóf feril sinn sem lögmaður í þjónustu páfa í Róm.

1612 skipaði Páll 5. páfi hann erkibiskup í Bologna. 1616 var hann sendimaður páfa í Savoja sem sáttasemjari milli Karls Emmanúels 1. hertoga og Filippusar 3. vegna deilna um yfirráð yfir Montferrat. Sama ár var hann gerður að kardinála og fimm árum síðar var hann kjörinn páfi eftir lát Páls.

Þegar Gregor settist í hásæti páfa var hann 67 ára gamall og skipaði þegar frænda sinn, Ludovico Ludovisi, kardinála þótt hann væri einungis 25 ára, og gerði hann að aðstoðarmanni sínum. Öðrum ættmennum sínum tryggði hann einnig stöður og titla, bæði með beinum skipunum og með því að hafa milligöngu um hjónabönd þeirra.

Gregor hafði lítil afskipti af stjórnmálum í Evrópu, utan að styrkja Ferdinand 2. keisara gegn mótmælendum og Sigmund 3. gegn Tyrkjaveldi með fjármunum. Hann sendi frá sér síðustu tilskipun páfa gegn göldrum þar sem allar refsingar voru mildaðar og dauðarefsing bundin við þá sem gert höfðu samning við djöfulinn eða framið morð með göldrum.


Fyrirrennari:
Páll 5.
Páfi
(1621 – 1623)
Eftirmaður:
Úrbanus 8.