Gormahreiðrið
Gormahreiðrið (franska: Le nid des marsupilamis) er tólfta bókin í bókaflokknum um Sval og Val. Hún kom út árið 1960. Höfundur og teiknari hennar var listamaðurinn Franquin. Hún var önnur Svals og Vals-bókin sem gefin var úr íslensku, árið 1978. Aðalsaga bókarinnar er óvenjuleg að því leyti að hún fjallar að langmestu leyti um Gormdýrið en Svalur og Valur eru í aukahlutverkum.
Söguþráður
breytaTitilsagan, Gormahreiðrið, birtist í tímaritinu Sval á árunum 1956-57 og hefst ævintýrið strax að lokinni sögunni um Sval og górilluapana. Valur væntir þess að frásögn hans af ferðinni á górilluslóðir rati í útbreitt tímarit, en verður fyrir vonbrigðum þar sem grein ungrar blaðakonu er tekin fram yfir sögu hans. Blaðakonan reynist vera Bitla, sem býður félögunum á frumsýningu kvikmyndar sinnar um Gormdýrið.
Sagan lýsir svo lifnaðarháttum Gormsins í regnskógum Palombíu, útistöðum við jagúar, makaleit og stofnun fjölskyldu. Bitla er sögumaður bókarinnar, en inn á milli er frásögnin rofin með því að sýna undirtektir gesta kvikmyndahússins.
Seinni saga bókarinnar, Bófaslagur (franska: La foire aux gangsters) birtist fyrst á tímaritsformi árið 1958. Torkennilegur Japani Soto Kiki bankar upp á hjá Sval og Val og byrjar að glíma við þá upp úr þurru. Honum gengur þó ekki illt til, heldur kynnir sig sem lífvörð auðkýfingsins Johns P. Nut, sem sé væntanlegur í ferð til Evrópu. Óttast sé að missyndismenn úr flokki glæpaforingjans Caspianos vilji ræna syni hr. Nut og eru Svalur og Valur því ráðnir til hjálpar, að undangenginni kennslu í júdó.
Fáeinum dögum síðar hringir Soto Kiki í Sval og færir honum þær fréttir að hr. Nut sé kominn til landsins, syninum hafi verið rænt eins og óttast var og að þrjótarnir starfi sem hnefaleikamenn í fjölleikahúsi. Símtalið rofnar skyndilega þegar ekið er á bifreið þess japanska og hann lendir á sjúkrahúsi.
Svalur flýtir sér í fjölleikahúsið, þar sem hann hittir Viggó viðutan, sem kemur nærri upp um hann. Eftir nokkra leit sér Svalur hvar einn þrjótanna er að sinna ungabarni. Svalur höfðar til samvisku hans og flýr með barnið í körfu. Hinir þrjótarnir elta hann án árangurs. Þeir hitta hins vegar Viggó og reyna að fá hann til að leiða sig til Svals, en lögreglan hefur hendur í hári þeirra allra og stingur þeim í fangelsið og Viggó þar á meðal.
Í ljós kemur að auðkýfingurinn John P. Nut reynist tilbúningur og að ungabarnið var í raun sonur milljónamæringsins Honeysuckle, sem hafði verið rænt skömmu áður. Júdómeistarinn Soto Kiki hafði því einnig verið glæpamaður sem hugðist notfæra sér Sval og Val til að fá drenginn í sínar hendur og hirða lausnargjaldið.
Fróðleiksmolar
breyta- Gormahreiðrið var eftirlætisbók Franquins, sem lét það alla tíð angra sig að Svalur og Valur væru ekki hans eigin hugarsmíð. Gormdýrið var hins vegar hans hugverk, enda sneri Franquin sér síðar að ritum sérstakra sagna um það.
- Gormdýrið í bókinni er nauðalíkt Gormi, gæludýri Svals og Vals, en þó er ekki um sama dýr að ræða.
- Í upphaflegri útgáfu Bófaslags, sem birtist í tímaritinu Sval, er hálfrar síðu eftirmáli, þar sem gengið er frá lausum endum. Þar sést Soto Kiki lemstraður en útskrifaður af sjúkrahúsi jafna reikninga við glæpaforingjann Caspiano með því að sprengja hann í loft upp með bílasprengju. Strax að því loknu er hann handtekinn af lögreglunni og fær makleg málagjöld
Íslensk útgáfa
breytaBókin Gormahreiðrið var gefin út af Iðunni árið 1978 í íslenskri þýðingu Jóns Gunnarssonar. Þetta var önnur bókin í íslensku ritröðinni.