André Franquin

(Endurbeint frá Franquin)

André Franquin (3. janúar 19245. janúar 1997) var áhrifamikill belgískur myndasöguhöfundur. Hann er þekktastur fyrir að hafa skapað myndasögurnar um Viggó viðutan og Gorminn meðan hann vann við myndasögurnar um Sval og Val fyrir franska útgefandann Dupuis frá 1947 til 1969.

André Franquin
André Franquin
Franquin á myndasöguhátíð árið 1983.
Fæddur: 28. desember 1922
Etterbeek, Belgíu
Látinn:5. janúar 1997 (73 ára)
Saint-Laurent-du-Var, Frakklandi
Starf/staða:Myndasöguhöfundur
Þjóðerni:Belgískur
Þekktasta verk:Svalur og Valur
Viggó viðutan
Undirskrift:

Franquin fæddist í Etterbeek nálægt Brussel og hóf myndlistarnám í Institut Saint-Luc árið 1943. Skólanum var lokað vegna styrjaldarinnar ári síðar og Franquin hóf störf hjá skammlífu teiknimyndafyrirtæki, CBA, þar sem hann kynntist myndasöguhöfundunum Morris, Peyo og Eddy Paape. Franquin, Morris og Paape fengu síðan vinnu hjá franska útgefandanum Dupuis eftir gjaldþrot CBA árið 1945. Sá yngsti þeirra, Peyo, fékk þar vinnu sjö árum síðar. Á þessum tíma fengu þeir Morris og Franquin, auk Will, tilsögn hjá Jijé. Þeir voru stundum kallaðir fjórmenningagengið. Fjórmenningagengið var síðar skilgreint sem fyrsta kynslóð Marcinelle-skólans (Dupuis var þá staðsettur í Marcinelle) og stíllinn sem þeir þróuðu var nefndur ligne atome, til aðgreiningar frá ligne claire Hergés.

Árið 1946 fékk Jijé Franquin í hendur sögurnar um Sval og Val, sem Rob-Vel hafði byrjað á fyrir Tímaritið Sval árið 1938. Franquin þróaði röðina áfram í sífellt lengri sögum með fleiri persónum sem slógu í gegn á síðum tímaritsins. Franquin þjálfaði líka nýja kynslóð myndasöguhöfunda á borð við Jean Roba, Jidéhem og Greg sem unnu með honum við myndasöguröðina. Árið 1957 gaf Yvan Delporte, aðalritstjóri Tímaritsins Svals, Franquin hugmyndina að nýrri persónu, Viggó viðutan, sem upphaflega var hugsaður sem uppfyllingarefni. Viggó varð brátt ein af þekktustu persónum Franquins og er stundum talinn fyrsta andhetja myndasagnanna.

Franquin þjáðist af þunglyndi og árið 1967 fékk hann ungan myndasöguhöfund, Jean-Claude Fournier, til að taka við Sval og Val. Síðar átti Franquin þátt í að þróa myndasögurnar um Isabelle (sem var nefnd eftir dóttur Franquins) og Idées Noirs.