Genfarsáttmálarnir

Genfarsáttmálarnir eru fjórir sáttmálar sem kenndir eru við borgina Genf í Sviss þar sem þeir voru samþykktir. Sáttmálarnir voru þeir fyrstu til þess að koma á fót alþjóðlegum reglum varðandi mannúðarskyldur ríkja í stríði. Það var að frumkvæði Henry Dunant sem ráðist var í gerð sáttmálanna en hann beitti sér mjög fyrir því að slíkar reglur yrðu settar eftir að hafa orðið vitni að hryllingi stríðs í orrustunni við Solferino.

Sáttmálarnir eru eftirfarandi:

  • Fyrsti Genfarsáttmálinn, um meðferð slasaðra og sjúkra hermanna á vígvelli (upprunalega samþykktur 1864, síðast endurskoðaður 1949).
  • Annar Genfarsáttmálinn, um meðferð skipbrotsmanna (upprunalega samþykktur 1949 en byggði á svokölluðum Haag-samninga X frá 1907).
  • Þriðji Genfarsáttmálinn, um meðferð stríðsfanga (upprunalega samþykktur 1929, síðast endurskoðaður 1949).
  • Fjórði Genfarsáttmálinn, um meðferð óbreyttra borgara í stríði (upprunalega samþykktur 1949 en byggði á svokölluðum Haag-samninga IV frá 1907).

Síðar hafa verið samþykktar eftirfarandi viðbótarsamþykktir:

  • Viðbótarsamþykkt I (1977), til að auka vernd óbreyttra borgara, lagði m.a. bann við árásum á borgaraleg mannvirki sem ekki hafa hernaðarþýðingu.
  • Viðbótarsamþykkt II (1977), áréttaði að sú vernd sem Genfarsáttmálarnir veita gildi einnig í innanlandsátökum.
  • Viðbótarsamþykkt III (2005), lögleiddi rauða kristallinn sem nýtt merki með sömu stöðu og Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn.

Fyrsti Genfarsáttmálinn fylgdi eftir stofnun Alþjóðaráðs Rauða krossins árið 1863. Allir fjórir sáttmálarnir voru síðast endurskoðaðir og samþykktir á ný 1949, aðallega í samræmi við breytingar sem áður höfðu verið gerðar og einnig var margt tekið upp úr Haag-samningunum frá 1907. Nánast öll sjálfstæð ríki heimsins (um 200 talsins) hafa skrifað undir og fullgilt Genfarsáttmálana.

Tenglar

breyta
  • Genfarsamningarnir, upplýsingar á heimasíðu Rauða krossins
  • „Hvað er Genfarsáttmálinn?“. Vísindavefurinn.