Alþjóðaréttur
(Endurbeint frá Þjóðaréttur)
Alþjóðaréttur, alþjóðalög eða þjóðaréttur eru lög, hefðir og staðlar sem eru almennt viðurkennd í samskiptum ríkja. Alþjóðaréttur myndar leiðbeinandi reglur um ýmis ólík svið, eins og stríð, alþjóðasamskipti, alþjóðaviðskipti og mannréttindi. Lagaheimildir alþjóðaréttar skiptast í þjóðréttarvenjur og alþjóðasamninga.
Alþjóðaréttur er aðgreindur frá lagakerfum ríkja að því leyti að hann á aðeins við um ríkin sjálf, og byggist að stórum hluta á samþykki, þar sem enginn aðili getur framfylgt lögunum gegn fullvalda ríkjum. Ríkin geta því kosið að brjóta alþjóðalög og jafnvel samninga. Slíkt getur þó haft afleiðingar og leiðir stundum til þvingandi aðgerða annarra ríkja, eins og slit stjórnmálasambands, efnahagsþvingana eða stríðs.