Henri Dunant

Svissneskur viðskiptamaður og stofnandi Rauða krossins
(Endurbeint frá Henry Dunant)

Henri Dunant (8. maí 1828 – 30. október 1910), fæddur undir nafninu Jean-Henri Dunant og einnig kallaður Henry Dunant, var svissneskur athafnamaður, mannvinur og aðgerðasinni. Hann er þekktastur fyrir að hafa stofnað Rauða krossinn. Hann átti einnig frumkvæði að fyrsta Genfarsáttmálanum og var stofnandi svissneskrar deildar Kristilegs félags ungra manna. Dunant hlaut friðarverðlaun Nóbels við fyrstu veitingu þeirra árið 1901 ásamt franska friðarsinnanum Frédéric Passy.

Henri Dunant
Fæddur8. maí 1828
Dáinn30. október 1910 (82 ára)
ÞjóðerniSvissneskur
StörfAthafnamaður
Þekktur fyrirAð stofna Rauða krossinn
Börn1
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1901)

Æviágrip breyta

Jean-Henri Dunant fæddist í Genf í Sviss árið 1828. Hann var elstur fimm systkina og var kominn af efnaðri kalvínískri embættismannaætt. Þegar Dunant var sjö ára fór hann ásamt fjölskyldu sinni í heimsókn til Toulon og varð vitni að hlekkjuðum föngum sem unnu þar í nauðungarvinnu. Honum brá mjög við aðstæður fanganna og lýsti því yfir í bréfi til afa síns að hann myndi lifa nógu lengi til að frelsa fangana.[1][2]

Dunant nam bankafræði og efnaðist vel á unga aldri sem hluthafi í arðvænum verslunarrekstri.[3] Dunant hélt ungur í kaupsýsluferðir til Sikileyjar, Túnis og Alsír. Í Alsír, þar sem Frakkar voru þá að herða nýlenduyfirráð sín, varð Dunant í fyrsta skipti vitni að aðstæðum hermanna á vígvelli og tók þar þátt í að hjúkra hermönnunum.[4]

Árið 1859 hélt Dunant til bæjarins Castiglione á Ítalíu til að ná tali af Napóleon 3. Frakkakeisara, sem var þar staddur ásamt franska hernum í öðru ítalska sjálfstæðisstríðinu. Ætlun Dunants var að fá leyfi frá keisaranum til nýtingar vatnsafls til að knýja myllur sínar í Alsír.[5][1] Í ferðinni varð Dunant vitni að orrustunni við Solferino, þar sem um 40.000 manns lágu særðir eða dauðvona á vígvellinum. Dunant brá mjög við ofbeldið og tók það að sér að skipuleggja hjúkrunarstarf fyrir hermennina ásamt íbúum Castiglione.[6] Hann kom upp hjúkrunarmiðstöð í kirkju bæjarins og fékk konur Castiglione til liðs við sig í hjúkrunarstarfinu. Jafnframt kom hann því til leiðar að austurrískir læknar sem teknir höfðu verið til fanga voru látnir lausir og þeim leyft að hjálpa til á hjúkrunarmiðstöðinni.[4] Dunant hlaut viðurnefnið „hvítklæddi maðurinn“ með frammistöðu sinni í Solferino.[3]

Eftir heimkomuna til Sviss skrifaði Dunant bókina Endurminningar frá Solferino, þar sem hann lýsti þjáningu og skelfingu stríðsins og kallaði á eftir stofnun alþjóðafélags til að sjá um hjúkrunar- og líknarstarf á vígvöllum. Bókin vakti mikla athygli og fjöldi þjóðarleiðtoga og annarra áhrifamanna hrósuðu Dunant fyrir hugmyndir hans. Árið 1863 stofnaði Dunant Rauða krossinn ásamt fjórum vinum sínum í Genf. Ári síðar var alþjóðaráðstefna haldin í borginni sem leiddi til samþykktar fyrsta Genfarsáttmálans um meðferð slasaðra og sjúkra hermanna.[3] Á ævi Dunants var Genfarsáttmálinn útfærður nánar árið 1906 og látinn ná til sjóhernaðar eftir frekari viðbætur árin 1899 og 1907.[7]

Dunant þótti gæddur miklum persónutöfrum og sannfæringarkrafti en bjó hins vegar ekki yfir mikilli skipulagshæfni. Því risu brátt ágreiningsmál milli hans og samherja hans á sama tíma og undirfélög Rauða krossins urðu til í mörgum löndum víðs vegar um heim. Auður Dunants rénaði mjög á sama tíma og Rauða krossinum óx ásmegin og við fimmtugt var hann orðinn bæði efnalítill og heilsuveill.[3] Dunant féll smám saman í gleymsku í heimalandi sínu og flutti um síðir til Frakklands. Rauði krossinn hlaut nokkurs konar eldskírn með frammistöðu sinni í stríði Prússlands og Austurríkis árið 1866 og Dunant var í kjölfarið boðið sem heiðursgesti til hátíðarhalda í Berlín þar sem Prússar fögnuðu sigri sínum í stríðinu.[4]

Átið 1867 varð Dunant gjaldþrota vegna 100.000 franka lánsábyrgðar sem hann hafði tekið á sig fyrir vin sinn.[4] Vegna fjárhagsörðugleika Dunants krafðist Gustave Moynier, forseti alþjóðanefndar Rauða krossins, þess að Dunant segði upp sæti sínu í nefndinni. Dunant sendi uppsagnarbréf sitt til Moyniers frá París þann 25. ágúst 1867 og sneri aldrei aftur til Genf.[1] Hann neyddist að endingu árið 1887 til að flytja inn á fátækrahæli í bænum Heiden í Sviss.[3]

Dunant bjó lengi í einsemd við þröngan kost í Heiden. Hagur hans vænkaði nokkuð árið 1895 eftir að svissneski blaðamaðurinn Georg Baumberger fjallaði um hrörlegar aðstæður Dunants og fjöldi aðdáenda hans hófu að senda honum heiðurs- og fjárstyrki.[8] Árið 1901 hlaut Dunant friðarverðlaun Nóbels á móti Frakkanum Frédéric Passy við fyrstu veitingu verðlaunanna. Þrátt fyrir að vera aftur orðinn vel efnaður undir lok ævi sinnar breytti Dunant ekki fábrotnum lífsháttum sínum og varði mestu fé sínu til líknarmála. Hann lést árið 1910 í Heiden, þá 82 ára.[3]

Tilvísanir breyta

  1. 1,0 1,1 1,2 „150 ár frá fæðingu Henry Dunant“. Tíminn. 7. maí 1978. Sótt 8. maí 2020.
  2. „Hlekkjuðu fangarnir í Toulon“. Æskan. 1. janúar 1984. Sótt 8. maí 2020.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 3,5 Jón Auðuns (1. júlí 1963). „Henri Dunant“. Kirkjuritið. Sótt 8. maí 2020.
  4. 4,0 4,1 4,2 4,3 „Henri Dunant“. Fálkinn. 8. júní 1951. Sótt 8. maí 2020.
  5. „Dunant, stofnandi rauða krossins“. Alþýðublaðið. 5. janúar 1945. Sótt 8. maí 2020.
  6. Jón Auðuns (31. ágúst 1963). „Hundrað í þjónustu mannúðarinnar“. Morgunblaðið. Sótt 8. maí 2020.
  7. „Hvað er Genfarsáttmálinn?“. Vísindavefurinn.
  8. „Dunant, stofnandi rauða krossins“. Alþýðublaðið. 6. janúar 1945. Sótt 8. maí 2020.