Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans

Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans er samstarfsfélag landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans með aðsetur í Genf í Sviss. Það var stofnað árið 1919.

Merki Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans

Alþjóðasambandið er ekki sjálfstæð stofnun heldur samstarfsfélag landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans með aðsetur í Genf. Það var stofnað árið 1919 og hefur það að markmiði að stunda hjálparstarf sem ekki er nauðsynlega bundið átakasvæðum. Helstu verkefni þess hafa verið aðstoð á náttúruhamfarasvæðum auk fyrirbyggjandi fræðslu meðal annars um heilsuvernd víða um heim.

Þróunar- og uppbyggingarstarf er einnig mikilvægur þáttur í starfsemi Alþjóðasambandsins. Komi til náttúruhamfara eða annarra stórra áfalla getur þurft að koma viðkomandi landi til aðstoðar í kjölfar þess. Slík aðstoð getur varað í langan tíma, mörg ár jafnvel, og miðar að því að gera íbúunum kleift að takast á við lífið á nýjan leik. Starfsmenn Alþjóðasambandsins sinna þessu verkefni í samvinnu við heimamenn og viðkomandi landsfélag.

Alþjóðasambandið er í nánum tengslum við landsfélög hreyfingarinnar og lýtur stjórn þeirra en landsfélögin tilnefna fulltrúa á allsherjarfund sem haldinn er árlega. Alþjóðasambandið lætur til sín taka í uppbyggingu nýrra landsfélaga og styður við starfsemi þeirra sem fyrir eru.

Íslenskir sendifulltrúar hafa tekið þátt í starfi Alþjóðasambandins til margra ára og starfað á þess vegum á erlendum vettvangi.

Tenglar breyta