Fyrsta ráðuneyti Hermanns Jónassonar
Fyrsta ráðuneyti Hermanns Jónassonar (stundum kallað Stjórn hinna vinnandi stétta) er heiti á fyrstu ríkisstjórn Hermanns Jónassonar sem var samsteypustjórn Framsóknarflokksins og Alþýðuflokksins mynduð eftir Alþingiskosningar 1934 og tók til starfa 28. júlí. Þetta var í fyrsta skipti sem verkamannaflokkur átti aðild að ríkisstjórn á Íslandi. Meginverkefni stjórnarinnar var að takast á við þau vandamál sem fylgdu kreppunni sem á Íslandi stóð frá 1931 til 1940. Stjórn hinna vinnandi stétta var fyrsta ríkisstjórnin sem gerði með sér opinberan málefnasamning.
Stjórnin sammæltist um víðtækar efnhags- og félagslegar umbætur. Hún kom í fyrsta sinn á heildstæðri löggjöf um almannatryggingar og bætti fátækralögin, sem voru með helstu baráttumálum Alþýðuflokksins, en flokknum tókst ekki að koma fram löggjöf um atvinnuleysisbætur. Um leið var komið skipulagi á sölu landbúnaðarafurða með afurðasölulögum sem meðal annars leiddi til stofnunar staðbundinna mjólkursamlaga með einkarétt á sölu mjólkur á tilteknu landsvæði, og grænmetisverslunar ríkisins með einkarétt á innflutningi grænmetis til landsins, auk þess sem komið var á einkarétti ríkisins á ýmsum öðrum sviðum bæði inn- og útflutnings og eftirliti með öðrum. Stjórnin kom á fót skipulagsnefnd atvinnumála sem átti m.a. að reyna að útrýma atvinnuleysi. Reistar voru skorður við innflutningi með innflutningshöftum og innflutningstollar lagðir á innfluttan iðnvarning um leið og reynt var að koma á innlendri framleiðslu á sem flestum sviðum.
Framsóknarflokkurinn var ríkjandi flokkur í samstarfinu og það að atvinnuleysistryggingamálið skyldi ekki nást í gegn varð Alþýðuflokknum áfall. Þegar árið 1934 hafði Kommúnistaflokkur Íslands hafið tilraunir í þá átt að fá Alþýðuflokkinn með sér í breiðfylkingu alþýðu en Alþýðuflokkurinn vildi ekki ljá máls á því. Héðinn Valdimarsson hélt þá afram viðræðum við Kommúnista og 1937 var hann rekinn úr Alþýðuflokknum fyrir að stunda slíkar viðræður gegn ákvörðun flokksins. 1938 stofnaði hann Sameiningarflokk alþýðu - Sósíalistaflokkinn með Kommúnistum.
Í febrúar 1937 urðu harðvítugar deilur á Alþingi þegar Alþýðuflokkurinn lagði til að stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, Kveldúlfur, sem meðal annars var í eigu Ólafs Thors, formanns Sjálfstæðisflokksins, yrði tekið til gjaldþrotaskipta vegna skulda þess við Landsbanka Íslands. Framsóknarflokkurinn hafnaði tillögunni og ekkert varð úr aðgerðum. Kveldúlfur bætti síðan skuldastöðu sína verulega á næstu árum.
Í kosningum þetta sama ár bætti Framsóknarflokkurinn við sig fjórum þingmönnum en Alþýðuflokkurinn missti tvo þannig að stjórnin bætti við meirihluta sinn. Í apríl 1938 tók Skúli Guðmundsson, Framsóknarflokki, við embætti atvinnumálaráðherra af Haraldi Guðmundssyni.
17. apríl 1939 var svo mynduð þjóðstjórn á Alþingi með þátttöku Sjálfstæðisflokksins vegna þess að brýnt þótti að fella gengi krónunnar til hagsbóta fyrir sjávarútveginn og vegna þess að mönnum þóttu blikur á lofti í alþjóðamálum.
Ráðherrar
breyta- Hermann Jónasson (F), forsætisráðherra og dómsmálaráðherra
- Eysteinn Jónsson (F), fjármálaráðherra
- Haraldur Guðmundsson (A), atvinnumálaráðherra (til 1938)
- Skúli Guðmundsson (F), atvinnumálaráðherra (frá 1938)