Frímann B. Arngrímsson

Frímann Bjarnason Arngrímsson (18551936) var íslenskur fræðimaður og uppfinningamaður. Hann fæddist í Hörgárdal 1855 og flutti til Vesturheims árið 1874 með fyrsta stóra hópnum af Norðurlandi. Hann var fyrsti Vestur-Íslendingurinn til að stunda háskólanám en hann útskrifaðist 6. júní 1885 frá Manitoba-háskóla með B.A.-gráðu. Hann starfaði á vegum Kanadastjórnar og stofnaði blaðið Heimskringla í Winnipeg árið 1886. Frimann flutti til Massachusetts og starfaði þar í rannsóknarstofum MIT í raftækjaverslunum. Hann fékk mikinn áhuga á rafvæðingu Íslands og því sem hann kallaði „hvítu kolin“, að vinna orku úr vatnsafli. Hann kom tvisvar til Íslands 18941895 til að tala fyrir rafvæðingu. Hann taldi lítinn árangur sinn stafa af því að hann var fátækur og ættlítill, landsmenn íhaldssamir og hagsmunir kolakaupmanna miklir af því að ekki væri virkjað.

Auglýsing frá Frímanni sem birtist í Degi árið 1926

Frímann starfaði í rannsóknarstofum í Bretlandi á þriðja ár en flutti svo til Parísar 1897 og vann fyrir sér með ritstörfum, kennslu, fornbókasölu og byggingarvinnu. Í upphafi fyrri heimsstyrjaldarinnar kom hann til Íslands árið 1914 og settist að á Akureyri. Hann gaf út tímaritið Fylkir árin 1916 til 1927. Hann fékk styrk frá Alþingi til rannsókna á jarðefnum.

Frímann skrifaði mikið af greinum í íslensk og erlend rit. Greinar hans fjalla um trúarbrögð, stjórnmál, samgöngur við Ísland, raforkumál og fleira. Hannn skráði einkaleyfi í Bretlandi til að vinna orku úr straumum rafsegulsviðsins.

Frímanni er lýst svona í Almanak Ólafs S. Thorgeirssonar 1905: "Hann var maður, sem einlægt hefði getað verið að læra og ávalt fengið ágætan vitnisburð við hvert próf. En hann brast aftur þann hæfileika frekar en flesta menn aðra að færa sér það í nyt í lífinu, er hann hafði numið. Hann var maður hvorki forsjáll né hagsýnn og skorti hau verkhyggindi, er öllum mönnum eru svo afar-nauðsynleg, til þess að koma ár sinni fyrir borð í lífinu. Hann var bezti drengur með einlægan áhuga og brennandi fyrir öllu því, er hann hélt að betur mætti. En áhuginn var mikils til of ákafur. Hann gætti hvorki hófs né stillingar, en vildi öllu koma til leiðar um leið og honum hugkvæmdist það. Hann var býsna mælskur maður. Hann varð svo heitur oftast nær, er hann talaði, að eldur hraut af orðum hans. En hugsanir hans voru einatt næsta óljósar. Honum var ekki ávalt nærri því ljóst, hvað hann var sjálfur að fara, eða hvað það eiginlega var, sem hann í þann svipinn brann af áhuga fyrir og tók út harmkvæli í hjarta sínu af að geta ekki komið í framkvæmd. Það vantaði jafnvægi í huga hans og geðsmunirnir virtust því miður ekki alls kostar heilbrigðir. Þetta varð því til fyrirstöðu, að hann gæti eíginlega nokkuru áorkað. Ef þessi brestur hefði ekki verið í lund hans og gáfnafari, var hann manna líklegastur til að verða mannfélagi Vestur-íslendinga til gagns og prýði."

Heimildir

breyta