Fríða Á. Sigurðardóttir
Fríða Áslaug Sigurðardóttir (11. desember 1940 – 7. maí 2010) var íslenskur rithöfundur. Hún hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin 1990 fyrir skáldsöguna Meðan nóttin líður og síðan Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1992 fyrir sömu bók.
Fríða fæddist á Hesteyri í Sléttuhreppi á Hornströndum 11. desember 1940 og var hún næstyngst 13 systkina. Foreldrar hennar voru Stefanía Halldóra Guðnadóttir húsmóðir (f. 22.6. 1897, d. 17.11. 1973) og Sigurður Sigurðsson, bóndi og verkamaður (f. 28.3. 1892, d. 9.5. 1968). Fríða lauk stúdentsprófi frá ML árið 1961, BA-prófi frá Háskóla Íslands 10 árum síðar og loks cand. mag.-prófi í íslensku frá HÍ 1979. Hún starfaði sem bókavörður á Háskólabókasafni og Ameríska bókasafninu frá 1964-1970, var deildarfulltrúi við heimspekideild HÍ frá 1971-1973 og stundakennari við Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands frá 1973-1975.
Allt frá árinu 1978 fékkst hún fyrst og fremst við ritstörf en sinnti einnig prófarkalestri, þýðingum o.fl.
- Fyrsta bók Fríðu, smásagnasafnið Þetta er ekkert alvarlegt, kom út árið 1980.
- Í kjölfarið sendi Fríða frá sér fjölda smásagna og skáldsagna auk þýðinga á verkum erlendra höfunda.
- Skáldsaga hennar Meðan nóttin líður (1990) hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 1991 og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1992, eins og fyrr er nefnt.
- Síðasta verk Fríðu var skáldsagan Í húsi Júlíu sem kom út í október 2006.
- Eftir Fríðu birtist einnig fjöldi greina um bókmenntir í blöðum og tímaritum auk þess sem hún sendi frá sér ritgerð um leikrit Jökuls Jakobssonar.
Verk Fríðu hafa verið þýdd á fjölda tungumála, þar á meðal ensku, tékknesku, þýsku og Norðurlandamálin. Hún var heiðursfélagi í Rithöfundasambandi Íslands.
Fríða giftist eiginmanni sínum, Gunnari Ásgeirssyni yfirkennara (f. 1937), árið 1959 og voru þau búsett í Reykjavík.
Fríða er systir Jakobínu Sigurðardóttur skáldkonu.