Frédéric Passy (20. maí 1822 – 12. júní 1912) var franskur hagfræðingur sem tók þátt í stofnun margra friðarsamtaka og alþjóðahreyfinga, meðal annars Alþjóðaþingmannasambandsins. Hann var einnig rithöfundur og stjórnmálamaður og sat á neðri deild franska þingsins frá 1881 til 1889. Hann vann til friðarverðlauna Nóbels árið 1901 fyrir störf sín með evrópsku friðarhreyfingunni.

Frédéric Passy
Fæddur20. maí 1822
Dáinn12. júní 1912 (90 ára)
ÞjóðerniFranskur
StörfHagfræðingur, stjórnmálamaður
MakiBlanche Sageret (g. 1847; d. 1900)
Börn4
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1901)

Æviágrip breyta

Frédéric Passy kom úr fjölskyldu frægra vísindamanna og stjórnmálamanna. Hann gekk í Louis-le-Grand-menntaskólann og síðar í Bourbon-menntaskólann, nam þar lögfræði og hlaut lögmannsréttindi.[1] Frá árinu 1846 vann hann sem endurskoðandi hjá franska ríkisráðinu[2] en hóf síðan feril í blaðamennsku. Hann kvæntist Marie-Blanche Sageret árið 1847.

Árið 1856 keypti Passy lystigarðinn Désert de Retz af ekkju leikskáldsins Jean-François Bayard.[3]

Í dagblaðinu Le Temps fór Passy fyrir ritaðri álitsherferð gegn yfirvofandi stríði á milli Frakklands og Prússlands og stofnaði í kjölfarið Bandalag friðar og frelsis (fr. Ligue de la paix et de la liberté) þann 21. maí 1867 og síðan Alþjóðlega gerðardómssambandið, sem varð einn af forverum Sameinuðu þjóðanna, árið 1870.

Passy var kjörinn á héraðsþing Seine-et-Oise og sat þar fyrir kantónuna Saint-Germain-en-Laye frá 1874 til 1898. Árið 1877 var Passy kjörinn í frönsku siðfræði- og stjórnmálafræðiakademíuna. Hann var kjörinn á neðri deild franska þingsins í kosningum árið 1881 og 1885 og sat fyrir 8. hverfi Parísar. Hann tapaði endurkjöri á þingið árið 1889 en beitti sér áfram gegn nýlendustefnu ríkisstjórnar Jules Ferry og var lengi minnst sem þingmanns sem vildi láta banna stríð. Sem þingmaður samdi Passy löggjöf um slys á vinnustað sem hagstæð voru fyrir franska verkamenn.

Árið 1888 kynntist Passy, sem leiðtogi sendinefndar franskra þingmanna, breska þingmanninum William Randal Cremer, sem fór fyrir sambærilegri nefnd breska þingsins. Fundur þeirra leiddi til þess að hópur franskra, breskra, ítalska, spænskra, danskra, ungverskra, belgískra og bandaríska þingmanna stofnuðu með sér Alþjóðaþingmannasambandið árið 1889. Frédéric Passy varð einn fyrsti forseti sambandsins og vonaðist meðal annars til þess að sambandið myndi koma á sáttum milli Frakka og Breta.[4]

Passy var áhugasamur um uppeldisfræði og var í þeim efnum sammála kenningum belgíska bókfræðingsins Pauls Otlet, meðstofnanda alþjóðlegu bókfræðistofnunarinnar Mundaneum. Passy var jafnframt femínisti og var fylgjandi afnámi dauðarefsinga.[5] Í efnahagsmálum var Passy fylgjandi fríverslun og aðhaldi í ríkisútgjöldum.

Þann 10. desember árið 1901 hlaut Passy friðarverðlaun Nóbels ásamt Henry Dunant, stofnanda Rauða krossins, við fyrstu afhendingu verðlaunanna.[4] Árið 1903 varð hann jafnframt sæmdur frönsku heiðursorðunni.

Tilvísanir breyta

  1. Arlette Schweitz, Les Parlementaires de la Seine sous la Troisième République volume 2 : dictionnaire biographique, éditions de la Sorbonne, 2001.
  2. Cobden, Richard; Morgan, Simon (2007). The Letters of Richard Cobden: 1860-1865 (enska). Oxford University Press. ISBN 9780199211982. Sótt 15. október 2019.
  3. „Historique“. www.ledesertderetz.fr. Sótt 5. nóvember 2019.
  4. 4,0 4,1 Clinton, Michael (2007). „Frédéric Passy: Patriotic Pacifist“ (PDF). Journal of Historical Biography. University of the Fraser Valley. 2 (1). ISSN 1911-8538. Sótt 18. október 2019.
  5. Cooper, Sandi E. (1991). Patriotic Pacifism: Waging War on War in Europe, 1815-1914 (enska). Oxford University Press. ISBN 9780199923380.