66°06.44′N 17°53.90′V / 66.10733°N 17.89833°V / 66.10733; -17.89833

Flateyjardalur

Flateyjardalur

Flateyjardalur er dalur og strönd sem liggur norð-austantil á skaganum milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa og nær frá Landsenda í vestri til Hágangna í austri. Suður úr Flateyjardal liggur heiðardalurinn Flateyjardalsheiði til móta Fnjóskárdals og Dalsmynnis.

Dalurinn tilheyrir nú Þingeyjarsveit en áður Hálshreppi frá 1972 og einnig fyrr á öldum, en frá 1907-1972 voru Flateyjardalur og Flatey sérstakt sveitarfélag, Flateyjarhreppur.

Á Flateyjardal er mikið vetrarríki og snjóþyngsli og samgöngur oft torveldar af þeim sökum. Um dalinn liggur jeppafær slóði yfir Flateyjardalsheiði, sem einungis er fær að sumri. Vegna erfiðra samgangna fór dalurinn í eyði um miðja 20. öld en þar mátti finna allnokkur býli. Síðasti bærinn sem fór í eyði var Brettingsstaðir neðri árið 1953. Íbúðarhúsið á bænum stendur enn og er notað ásamt tveimur öðrum reisulegum húsum á dalnum, Brettingsstöðum efri og Jökulsá, sem sumarhús.

Á Flateyjardal
Útsýni frá Flateyjardal til Flateyjardalsheiðar.

Sóknarkirkja Flateyjardals og Flateyjar, sem liggur á Skjálfandaflóa skammt undan landi, hafði verið í Flatey frá fornu fari en í jarðskjálfta árið 1872 laskaðist hún og þarfnaðist endurbyggingar. Þar sem kirkjugarðurinn í Flatey var útgrafinn og þörf á að flytja kirkjuna til var ákveðið að flytja hana í land og að Brettingsstöðum, en á þessum tíma voru álíka margir íbúar í eynni og á Flateyjardal. Það tók þó sinn tíma og var kirkjan á Brettingsstöðum ekki vígð fyrr en 1897. Smám saman fækkaði þó fólki í landi en eyjarskeggjum fjölgaði og eftir að dalurinn var allur farinn í eyði var kirkjan flutt aftur út í eyna. Þar var hún endurvígð 17. júlí 1960 en nokkrum árum síðar fór Flatey einnig í eyði.

Saga Flateyjardals er samofin sögu Finnboga ramma sem fæddist þar, á bænum Knarrareyri, en hann var garpur mikill, þótt gæfa hans væri misjöfn. Landnámsmaður í dalnum er sagður hafa verið Eyvindur Loðinsson, faðir Ásbjarnar dettiáss, föður Finnboga.

Heimildir breyta

  • „Unnið að endurbótum undanfarin misseri. Morgunblaðið, 29. júlí 2004“.

Tengt efni breyta