Fjallagrös
Fjallagrös (fræðiheiti: Cetraria islandica) er þrátt fyrir nafnið flétta (þörungar og sveppur í samlífi) en ekki gras. Þau eru algeng í fjalllendi og hásléttum á norðlægum slóðum. Fjallagrös eru sérstaklega algeng á Íslandi en finnast einnig á fjöllum í Noregi og í norðurhluta Wales, Skotlandi og suð-vestur Írlandi. Blöð fjallagrasa eru mismunandi, þau eru oft brúnleit eða nær svört, mjó og rennulaga, eða þau geta verið blaðkennd og frekar breið, ljósbrún eða grænleit á lit. Blaðjaðrarnir eru alsettir mjóum randhárum.
Fjallagrös | ||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||
| ||||||||||||||
Tvínefni | ||||||||||||||
Cetraria islandica |
Nytjar
breytaFjallagrös hafa verið nytjuð á Íslandi í margar aldir, þau voru notuð soðin í blóðmör, seyði af þeim drukkið, notuð sem litunargras, möluð í mat, þau soðin (hleypt) í grasagraut (grasalím) og haft sem eftirát. Það tíðkaðist að fara í grasaferðir til að safna fjallagrösum síðsumars.
Fyrstu heimildir um fjallagrös á Íslandi má finna í Jónsbók sem er lögbók frá árinu 1281 en þar kemur fram að ólöglegt var að tína grös á landi annarra bænda. Jarðir sem höfðu góð grasalönd voru metnar mikils virði og grasatekja jók á verðgildi jarðanna. Á 18. og 19. öld fór hópur fólks frá þeim bæjum sem höfðu fjallagrasahlunnindi á sínum jörðum í ferð hvert sumar, oftast í júnímánuði til þess að safna grösum fyrir veturinn. Þátttakendur ferðanna voru yfirleitt konur og ungt fólk undir stjórn eins karlmanns. Hópurinn fór ríðandi til fjalla á hestum með tjaldbúnað og skinnpoka undir grösin. Tjöldin voru reist við komu á áfangastað, oft við læk eða á. Eldstæði var komið upp og mosa og lyngi dreift í tjaldbotnana. Fólk dreifði sér um svæðið og safnaði grösum frá kvöldi og alla nóttina. Hentugt var ef jörðin var rök því rakinn mýkir fjallagrösin upp og aðskilur þau frá annars konar gróðri sem auðveldar söfnun þeirra. Yfir daginn voru grösin síðan þurrkuð í sólinni og fólkið skemmti sér á meðan með söngvum og öðrum kveðskap eða lagðist til hvíldar til þess að geta svo endurtekið leikinn að nýju. Við enda þessarra ferða voru grösin flutt á hestum aftur heim til bæja þar sem lokið var við að þurrka þau og hreinsa til fulls. Grösin voru svo sett í poka eða önnur ílát og geymd til matargerðar þar sem litið var á þau sem næringa- og steinefnaríka fæðu. Í dag hafa lifnaðarhættir þjóðfélagsins breyst til muna og fólk er ekki eins háð náttúrunni og áður þó fjallagrös séu enn notuð í dag.
Fjallagrös eru næringarrík og hafa verið notuð í staðinn fyrir sterkju í sumum kakóuppskriftum. Þau hafa einnig verið notuð til lækninga gegn ýmsum kvillum í öndunarvegi t.d. kvefi, lungnakvefi, asma og berklum og kvillum í meltingafærum t.d. magabólgum, meltingatruflunum, hægðartregðu og til þess að bæta matarlyst. Uppistaðan í fjallagrösum, um 40 - 50%, er slímkenndar fjölsykrur. Slímið þenst út það kemst í snertingu við vatn. Slímsykrurnar meltast í þörmum og þess vegna hefur eðlisávísun fólks rekið það til að borða fjallagrös til að sefa og fylla magann þegar hungursneyð geisaði og enginn annar matur var í boði. Fjallagrös voru harðindamatur eins og kemur fram í þessari vísu:
- Vor fram reiðir konukind
- og kallar það sé nægtaborð
- fjallagrös með flautavind
- og fínlega þéttan bruðnings sporð.
Efnafræði
breytaÍ fjallagrösum er beiskjuefni sem örvar rennsli munnvatns og magasafa og verkar styrkjandi á maga og örvar matarlyst. Rannsóknir benda til að efni í fjallagrösum örvi ónæmiskerfið og geti jafnvel verkað hamlandi á alnæmisveiruna.[heimild vantar] Fyrirtækið Íslensk fjallagrös, sem stofnað var árið 1993, framleiðir heilsuvörur úr íslenskum fjallagrösum.
Fjallagrös innihalda að minnsta kosti þrjú þekkt fléttuefni: prótólichesterinsýru, lichesterinsýru og einnig oft prótócetrarsýru.[1] Þalsvörun fjallagrasa er K-, C-, KC- P+ rauð eða P-.[1]
Tengt efni
breytaHeimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Cetraria islandica“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 18. október 2006.
- Umfjöllun á Lyfja.is [1]
- Íslensk Fjallagrös. (e.d.). Fjallagrös. Sótt 10.11.17 af http://www.fjallagros.is/frodleikur/fjallagros/
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 Hörður Kristinsson (2016). Íslenskar fléttur. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag. ISBN 978-9979-66-347-8