Filippus 3. Frakkakonungur

(Endurbeint frá Filippus djarfi)

Filippus 3. (30. apríl 12455. október 1285), einnig kallaður Filippus djarfi, var konungur Frakklands frá 1270 til dauðadags. Viðurnefnið „djarfi“ fékk hann vegna færni sinnar á hestbaki og í bardögum en ekki vegna stjórnvisku sinnar eða pólitískrar áræðni.

Stjórn Filippusar

breyta

Filppus var af Kapet-ætt, sonur Loðvíks 9. og Margrétar af Provence. Hann varð krónprins Frakklands þegar eldri bróðir hans, Loðvík, lést tæplega 16 ára í janúar 1260. Árið 1270 fór Filippus í krossferð með föður sínum og þremur bræðrum en Loðvík konungur og einn bræðranna dóu úr blóðkreppusótt í Túnis og Filippus varð þá konungur, 25 ára að aldri. Hann er sagður hafa verið lítill í sér, óákveðinn og undanlátssamur og látið stjórnast af viljasterkum foreldrum sínum og síðan ráðgjöfum en þó einkum af föðurbróður sínum, Karli Sikileyjarkonungi.

Um leið og hann hafði tekið við krúnunni í Túnis sneri hann aftur til Frakklands en fól Karli frænda sínum að ganga til friðarsamninga. Hann var krýndur konungur 12. ágúst 1271. Skömmu síðar dó annar föðurbróðir hans, Alfons greifi af Poitou, Toulouse og Auvergne, á Ítalíu á heimleið úr krossferð og Filippus erfði lén hans og bætti þeim við frönsku konungslendurnar. Seinna erfði hann einnig lendur eftir Pétur bróður sinn.

Krossferðin til Aragóníu

breyta
 
Krýning Filippusar 3.

Árið 1284 fór Filippus ásamt sonum sínum í herferð til Aragóníu, en Pétur 3., konungur Aragóníu og mágur Filippusar, hafði hertekið Sikiley, sem Karl föðurbróðir Filippusar réði, árið 1282 og síðan verið bannfærður af Marteini IV páfa. Bæði Sikiley og Aragónía töldust lénsríki páfastóls og páfinn hafði látið Karl af Valois, son Filippusar, hafa Aragóníu að léni. Þar sem herferðin var farin með blessun páfans var hún kölluð krossferð.

Þeir tóku bæinn Girona 7. september 1285 en síðan veiktist stór hluti franska hersins af blóðkreppusótt, þar á meðal Filippus konungur. Frakkar urðu að hörfa og Filippus dó í Perpignan í októberbyrjun. Var hann þriðji konungur Frakka í röð til að deyja úr blóðkreppusótt í herferð.

Fjölskylda

breyta

Filippus var tvíkvæntur. Þann 28. maí 1262 giftist hann Ísabellu af Aragóníu, dóttur Jakobs 1. af Aragóníu og Jólöndu af Ungverjalandi. Hún dó á heimleið úr krossförinni til Túnis í ársbyrjun 1271 og árið 1274 giftist Filippus Maríu af Brabant, dóttur Hinriks 3., hertoga af Brabant og Adelaide af Búrgund.

Elsti sonur Filippusar, Loðvík, dó ellefu ára gamall 1276 og var talið að eitrað hefði verið fyrir honum og stjúpmóður hans jafnvel kennt um. Næstelsti sonurinn, Filippus, varð konungur við lát föður síns, sautján ára að aldri. Yngsti sonur þeirra var Karl greifi af Valois, sem eignaðist fjölda léna en varð þó aldrei konungur Aragóníu eins og páfinn hafði heitið honum.

Börn Filippusar og Maríu voru Loðvík greifi af Évreux, sem varð tengdafaðir Karls 4. Frakkakonungs, Blanka, sem giftist Rúdolf 3. hertoga af Austurríki, og Margrét, sem giftist Játvarði 1. Englandskonungi og varð drottning Englands.

Heimild

breyta


Fyrirrennari:
Loðvík 9.
Konungur Frakklands
(12701285)
Eftirmaður:
Filippus 4.