Felix Bergsson (f. 1. janúar 1967) er íslenskur leikari, útvarpsmaður og söngvari. Felix Bergsson byrjaði ungur að leika og lék sitt fyrsta hlutverk í Þjóðleikhúsinu árið 1978, þá 11 ára gamall. Felix lauk leiklistarnámi frá Queen Margaret University College í Edinborg árið 1991. Hann hafði þá þegar vakið athygli sem söngvari hljómsveitarinnar Greifanna árin 1986-1988, meðal annars í hinu vinsæla lagi Útihátíð. Felix fór í framhaldsnám í leiklist í Central School of Speech and Drama í London árin 1997 og 1998.

Felix hefur frá útskrift komið víða við í íslensku leikhúslífi. Hann lék fyrstu árin jöfnum höndum í stóru leikhúsunum og með sjálfstæðum leikhúsum. Meðal hans helstu hlutverka eru Júngkærinn í Íslandsklukku Halldórs Laxness, Tony í West Side Story, Þór í Gauragangi, Nornin í Skilaboðaskjóðunni, Eddy í Blóðbræðrum, Fattur í Hatti og Fatti, Láki í Íslensku mafíunni, Hr. Rokk í Abbababb!, George í Kvetch, Jerry í Svikum og Ljóti andarunginn í Honk. Felix er meðal stofnenda leikhópsins Bandamanna, en sá hópur sýndi víða um heim á árunum 1992 - 2000. Þá stofnaði Felix leikhópinn Á senunni ásamt Kolbrúnu Halldórsdóttur árið 1998. Felix skrifaði og lék fyrsta verk hópsins, Hinn fullkomna jafningja, sem vakti feikilega athygli jafnt innanlands sem utan. Þá fékk hópurinn hin íslensku leiklistarverðlaun, Grímuna, fyrir sýningu ársins, Kvetch, árið 2003 og barnasýningu ársins, Abbababb! árið 2006. Af öðrum sýningum hópsins má nefna söngleikina Kabarett og Paris at night og barnaleikritið Ævintýrið um Augstein.

Felix hefur verið virkur í gerð sjónvarps og útvarpsefnis í þáttum eins og Slett úr klaufunum, Stundin okkar, Fyrirgefðu, 6 til sjö, Bergsson og Blöndal, Gestir út um allt og Popppunktur. Þá hefur Felix stjórnað stórum sjónvarpsviðburðum eins og Íslensku tónlistarverðlaununum, Grímunni, Tónaflóði Rásar 2 á Arnarhóli og söfnunarþættinum Á allra vörum. Hann mun stjórna þáttunum Alla leið á RÚV nú á vorinu og fer sem kynnir RÚV á Eurovision keppnina í Malmö í Svíþjóð.

Felix og Gunnar Helgason gerðu leikna 24 þátta röð fyrir RÚV, jóladagatalið Leitina að Völundi. Samstarf Gunna og Felix á sviði vettvangi barnaefnis er landsfrægt og hafa þeir félagar sent frá sér myndbandsspólur, geisladiska og hljóðsnældur með leiknu efni. Þá lék Felix í kvikmyndunum Íslenska draumnum, Karlakórnum Heklu og Strákunum okkar. Hann hefur skrifað barnabók byggða á Ævintýrinu um Augastein, fjögur leikrit sem ratað hafa á svið, sjónvarpsþætti, barnaefni og ótal dægurlagatexta. Hann hefur sent frá sér fjölmargar plötur í samstarfi við aðra og eina sólóplötu, Þögul nóttin.

Felix var formaður í Bandalagi sjálfstæðra leikhúsa, SL, árin 2002-2004, sat í stjórn Höfuðborgarstofu, samtakanna Blátt áfram og Mannréttindaráðs Reykjavíkur. Hann var varamaður í Velferðarráði Reykjavíkur og Menningar og ferðamálaráði og sat í verkefnisstjórnum Vetrarhátíðar og Landnámssýningarinnar í Austurstræti. Hann var einnig varamaður í Þjóðleikhúsráði.

Ferill í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum breyta

Ár Kvikmynd/Þáttur Hlutverk Athugasemdir og verðlaun
1987 Áramótaskaupið 1987
Stundin okkar Felix Lék á árunum 1994-96
1992 Karlakórinn Hekla Kórfélagi
2000 Íslenski draumurinn Nágranni
2005 Strákarnir okkar Dómari
2011 Þögul nóttin Söngur Hljómdiskur með textum Páls Ólafssonar

Tenglar breyta

   Þetta æviágrip sem tengist leikurum og Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.