Langafasta

(Endurbeint frá Föstuinngangur)

Langafasta, einnig kölluð sjöviknafasta, hefst á Öskudegi, miðvikudegi í 7. viku fyrir páska. Föstuinngangur stendur frá sunnudeginum á undan og getur borið upp á 1. febrúar til 7. mars og fara þeir víðast hvar í hinni vestrænu kirkju fram með fögnuði fyrir föstutímann. Á Íslandi er í dag er ekki haldið upp á sunnudaginn lengur en hann hefur þó verið tengdur Æskulýðsdegi þjóðkirkjunnar, haldið er aftur á móti upp á mánudaginn með Bolludegi, þriðjudaginn með Sprengidegi og svo hefst Langafasta á miðvikudeginum með Öskudegi.

Siður er á Íslandi að á lönguföstu séu Passíusálmar Hallgríms Péturssonar lesnir í Ríkisútvarpinu.

Uppruni

breyta

Lönguföstu kristinna má rekja til 40 daga föstu Gyðinga fyrir páska. Heilbrigðissjónarmið virðast hafa ráðið miklu um föstusiði eftir landsvæðum og síðar gildi þess meðal hirðingja að fella ekki lambfylltar ær sem áttu að bera á páskunum. Gyðingar skipuðu því bann við kjötáti sjö vikurnar fyrir Páska og er það frumgerð Lönguföstu eins og hún er tímasett í dag. Páskarnir voru því uppskeruhátíð og nýfæddum lömbum slátrað við mikil hátíðarhöld. Páskalambið sem trúartákn er frá þessum tíma runnið. Á dögum Krists voru gyðingar ekki lengur hirðingjar en páskalambið lifði áfram sem trúartákn en í stað þess voru þeir orðin akuryrkjuþjóð og því var hátíð ósýrða brauðsins búin að bætast við tákn Páskanna.

Páskafasta kristinna manna var upphaflega ekki lengri en föstudagurinn langi og laugardagurinn eftir eða sá tími sem Jesús hvíldi í gröf sinni. Um miðja 3. öld var þó víða orðið siður meðal kristinna safnaða að fast eina til tvær vikur fyrir Páska. En á fyrri hluta 4. aldar varð 40 daga fastan ráðandi. Með því var föstutími gyðinga tekin upp að nýju en þá undir þeim formerkjum að Jesús hafi fastað 40 daga í eyðimörkinni og Móses dvalist jafnlengi á Sínaífjalli. Um miðja 5. öld útskýrði Leó páfi 1. tilgang lönguföstu sem að hún ætti að undirbúa sálina fyrir páskaundrið með innri hreinsun og helgun. Hún var því tími iðrunar fyrir drýgðar syndir. Sjálf fastan var mikilvægasti þáttur þessa undirbúnings.

Föstuhald var misstrangt í kaþólskum sið. Kjöt var efst á bannlistanum, þá egg og smjör, svo fiskur, næst grænmeti og mjólkurvörur en ströngust var fasta upp á vatn og brauð. Mismunandi var hve mikið eða hve oft mátti neyta þessa matar en fasta er ekki megrun né svelti heldur aðhald og agi í mataræði.

Föstuinngangur

breyta

Föstuinngangur er upphaf langaföstu sem stendur yfir þrjá daga fyrir öskudag, frá sunnudegi til þriðjudags. Hann fer víðast fram með fögnuði fyrir föstutímann. Gleðskapur við upphaf föstunnar á sér fornar rætur og hefur runnið saman við vorhátíðir í Suður-Evrópu. Algengt var að stéttir samfélagsins hæfu föstu hver sinn dag í föstuinngang og gat því orðið samfeld kjötkveðjuhátíð í nokkra daga. Við siðaskiptin var gerð hörð hríð að þessum siðum og til dæmis bannaði Danakonungur föstugangshlaup í löndum sínum á 17. öld en ekkert er vitað um slíka skemmtun á Íslandi fyrr en á 18. öld. Heimildir geta um matarveislur á þriðjudaginn, sprengidagskvöld, og telja má víst að saga þeirra nái aftur til kaþólskra tíma. Ekki var haldið upp á mánudaginn fyrr en á 19. öld með Bolludeginum en miðvikudagurinn hafi breyst úr iðrunardegi í skemmtidag eftir siðaskiptin á 16. öld.

Tengt efni

breyta

Heimildir

breyta
  • Árni Björnsson (2000). Saga daganna.
  • Fyrirmynd greinarinnar var að hluta til „Lent“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 27. janúar 2013.