Eskifjörður

bær á Austfjörðum
(Endurbeint frá Eskifjarðarkaupstaður)
Eskifjörður

Eskifjörður

Eskifjörður er bær á norðurströnd samnefnds fjarðar sem liggur út frá Reyðarfirði norðanverðum. Íbúar Eskifjarðar voru 1040 þann 1. janúar 2019 og hefur íbúatalan haldist nokkuð stöðug síðustu árin.

Eskifjörður um 1900.

Eskifjörður var verslunarstaður fyrr á öldum og var einn hinna sex staða á Íslandi, sem fengu kaupstaðarréttindi árið 1786 við afnám einokunarverslunarinnar, en missti þau aftur síðar. Árið 1798 reisti danska verslunarfyrirtækið Örum og Wulff verslunarhús í Útkaupstað, sem svo er kallaður, og hóf þar verslun. Það var þó ekki fyrr en Norðmenn hófu síldveiðar við Ísland á síðari hluta 19. aldar sem íbúum tók að fjölga verulega og árið 1902 voru íbúarnir orðnir 228.

Aðalatvinnuvegur íbúa Eskifjarðar er sjávarútvegur og fiskvinnsla en verslun og þjónusta eru einnig mikilvægar atvinnugreinar. Á Eskifirði er Sjóminjasafn Austurlands í gömlu húsi sem Örum og Wulff byggðu um 1816 og þar má sjá minjar um sjósókn á Austfjörðum og byggðasögu og atvinnulíf á Eskifirði. Aðsetur sýslumannsembættis Suður-Múlasýslu var flutt til Eskifjarðar 1853 og þar er miðstöð löggæslu á Austurlandi.

Byggðin var gerð að sérstökum hreppi, Eskifjarðarhreppi, árið 1907 en hafði fram að því tilheyrt Reyðarfjarðarhreppi. Hreppurinn fékk kaupstaðarréttindi á ný 22. apríl 1974. Hinn 1. janúar 1988 sameinaðist Helgustaðahreppur Eskifirði. Hinn 7. júní 1998 sameinaðist Eskifjarðarkaupstaður Reyðarfjarðarhreppi á ný og Neskaupstað að auki undir nafninu Fjarðabyggð.

Á Eskifirði er Steinasafn Sigurborgar og Sörens.

Heimildir

breyta
  • „Eskifjörður. Á vef Fjarðabyggðar, skoðað 12. apríl 2011“.

Á árunum 1971 til 1986 kom úr fimm binda ritverk Einars Braga skálds, sem kallast Eskja.

Tenglar

breyta