Dundee United Football Club er skoskt knattspyrnufélag, stofnað árið 1893, með aðsetur í Dundee.

Dundee F.C. var stofnað árið 1893 við samruna tveggja staðarliða, Dundee East End og Dundee Our Boys með það að markmiði að sækja um keppnisrétt í skosku deildarkeppninni. Umsóknin fékk náð fyrir augum stjórnenda deildarinnar og lék Dundee F.C. því sinn fyrsta deildarleik þá um haustið sem lauk með 3:3 jafntefli gegn Rangers. Gengið var misjafnt fyrstu árin. Í tvígang náði félagið fimmta sæti í deildinni og komst jafnoft í undanúrslit bikarkeppninnar. Inn á milli komu verri skellir, þannig tapaði Dundee árið 1895 fyrir Glasgow Celtic 11:0, sem enn er met.

Leiktíðina 1902-03 hafnaði Dundee í öðru sæti og fékk einungis tólf mörk á sig allt tímabilið, sem er met í breskri knattspyrnusögu. Árin 1906-07 og 1908-09 komu silfurverðlaunin aftur í hlut Dundee, en í seinna skiptið var félagið aðeins einu stigi frá meistaratitlinum. Ekki tókst liðinu þó að verða Skotlandsmeistari á þessu tímabili en veturinn 1909-10 varð það þó bikarmeistari í fyrsta og eina sinn eftir sigur á Clyde í úrslitum.

Dýrasti leikmaðurinn

breyta

Knattspyrnukeppni féll niður í Skotlandi á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Að henni lokinni byrjaði Dundee að krafti og var yfirleitt í hópi efri liða. Lykilmaður á þeim árum var Dave Halliday, einn mesti markahrókur í sögu félagsins. Hann getði m.a. garðinn frægan í keppnisferðum Dundee til Spánar þar sem mörg af kunnustu félögum landsins voru lögð að velli.

Undir lok þriðja áratugarins tók Dundee að síga jafnt og þétt neðar í töflunni og vorið 1938 féll Dundee í fyrsta sinn úr efstu deild. Eftir seinni heimsstyrjöldina skaust Dundee aftur í hóp þeirra bestu vorið 1947. Á sínu öðru ári í efstu deild náði Dundee öðru sæti, aðeins stigi á eftir meisturum Rangers og komst í undanúrslit í báðum bikarkeppnunum. Staðráðnir í að byggja á þessum árangri ákváðu stjórnendur félagsins að festa kaup á markahróknum Billy Steel frá Derby County fyrir 23.500 pund, sem talið var heimsmet á þeim tíma. Með Steel innanborð náði Dundee einu sinni þriðja sæti í deildinni, tapaði einum úrslitaleik í bikarkeppninni en varð deildarbikarmeistari árin 1952 og 1953.

Gullöldin

breyta

Veturinn 1958-59 beið Dundee gríðarlega óvæntan og niðurlægjandi ósigur fyrir áhugamannaliðinu Fraserburgh í skoska bikarnum og er það enn talin verstu skellur félagsins. En bjartari tímar voru í vændum. Sama haust tók Bob Shankly, bróðir Bill Shankly hins kunna þjálfara Liverpool við stjórn Dundee. Undir hans stjórn varð félagið Skotlandsmeistari í fyrsta og eina sinn leiktíðina 1961-62. Meistaratitillinn varð ekki í höfn fyrr en með sigri á St Johnstone í lokaumferðinni, sem jafnframt felldi St Johnstone niður um deild.

Meistaratitillinn veitti Dundee þátttökurétt í Evrópukeppni meistaraliða árið eftir þar sem félagið komst alla leið í undanúrslit en tapaði þar fyrir AC Milan. Leiktíðina 1967-68 endurtók félagið afrekið, að þessu sinni í borgakeppni Evrópu þar sem Dundee tapaði naumlega fyrir verðandi meisturum Leeds United í undanúrslitunum.

Hallar undan fæti

breyta

Dundee hafði alla tíð talist sterkara liðið af borgarfélögunum tveimur en um og uppúr 1970 tóku nágrannarnir í Dundee United yfirhöndina. Dundee varð deildarbikarmeistari leiktíðina 1973-74, en það reyndist síðasti stóri titillinn til þessa. Árið eftir var liðum í efstu deild fækkað niður í tíu og vorið 1976 féll Dundee niður um deild. Næstu árin rokkaði liðið milli tveggja efstu deildanna, komst hæst í 6. sæti í efstu deild og varði tíunda áratugnum á flakki milli deilda á nýjan leik.

Árið 2000 vakti það mikla athygli þegar Dundee samdi við argentínska framherjann Gabriel Batistuta og fylgdu nokkrar fleiri áhugaverðar ráðningar í kjölfarið. Ráðningar af þessu tagi skiluðu þó takmörkuðum árangri inni á vellinum en stuðluðu því frekar að fjárhagslegum vandræðum félagsins sem hefur ýmist fallið úr efstu deild eða strögglað við að halda sæti sínu þar.

Titlar

breyta