Carlos Filipe Ximenes Belo
Carlos Filipe Ximenes Belo (f. 3. febrúar 1948) er rómversk-kaþólskur biskup frá Austur-Tímor. Í messum sínum fordæmdi hann opinberlega ofbeldisfullt hernám Indónesíu á Austur-Tímor. Belo hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1996 ásamt landa sínum, José Ramos-Horta, fyrir tilraunir sínar til að finna „friðsamlega og réttláta lausn“ á sjálfstæðisbaráttu Austur-Tímor undan Indónesíu.[1][2]
Carlos Filipe Ximenes Belo | |
---|---|
Fæddur | 3. febrúar 1948 |
Þjóðerni | Austurtímorskur |
Menntun | Kaþólski háskólinn í Portúgal Páfaháskóli Salesreglunnar |
Störf | Biskup |
Trú | Kaþólskur |
Verðlaun | Friðarverðlaun Nóbels (1996) |
Undirskrift | |
Uppvöxtur og prestsnám
breytaCarlos Filipe Ximenes Belo var fimmta barn Domingos Vaz Filipe og Ermelindu Baptista Filipe. Hann fæddist árið 1948 í þorpinu Wailakama, nálægt Vemasse, á norðurströnd Portúgölsku Tímor. Faðir hans, sem var skólakennari, lést tveimur árum eftir að Belo fæddist. Hann varði æskuárum sínum í kaþólskum skólum í Baucau og Ossu en gekk síðan í heimavistarskóla fyrir tilvonandi presta fyrir utan Dili og útskrifaðist þaðan árið 1968. Frá 1969 til 1981 var Belo, að undanskyldum tímabilum í starfsþjálfun í Austur-Tímor og Makaó (1974–1976), staddur Portúgal og í Róm til að nema heimspeki og guðfræði sem meðlimur Salesreglunnar. Hann tók prestsvígslu árið 1980 og sneri aftur til Austur-Tímor árið 1981. Hann vann sem kennari í 20 mánuði og varð síðan skólastjóri Háskóla Salesreglunnar í Fatumaca.
Forysta í trúmálum
breytaÞegar Martinho da Costa Lopes settist í helgan stein árið 1983 var Carlos Filipe Ximenes Belo útnefndur postullegur umsjónarmaður biskupsdæmisins Dili og varð þar með höfuð austurtímorsku kirkjunnar, ábyrgur gagnvart páfanum í Róm. Þann 6. febrúar 1989 var Belo vígður biskup af Lorium.[3]
Belo var valinn til að taka við austurtímorsku kirkjunni af páfasendiherranum í Jakarta og af leiðtogum Indónesíu þar sem hann þótti auðsveipur og undirgefinn stjórnvöldum. Hann var ekki valinn af tímorskum prestum, sem mættu fyrir vikið ekki á vígsluathöfn hans. Aðeins fimm mánuðum eftir að hann tók við embætti kom Belo hins vegar á óvart í messu í dómkirkju sinni með því að mótmæla harðlega hrottaskap Indónesíuhers í blóðbaðinu í Kraras (1983) og fordæma fjöldahandtökur indónesískra stjórnvalda. Kirkjan var eina stofnunin sem gat haft samband við umheiminn og því hóf Belo að skrifa bréf og byggja upp tengslanet erlendis, þrátt fyrir einangrunina sem stafaði af andstöðu Indónesa og áhugaleysi alþjóðasamfélagsins.
Í febrúar árið 1989 skrifaði Belo bréf til forseta Portúgals, páfans og aðalritara Sameinuðu þjóðanna þar sem hann fór fram á atkvæðagreiðslu á vegum Sameinuðu þjóðanna um framtíð Austur-Tímor og bað um neyðarhjálp fyrir Austur-Tímora, sem hann sagði að væru að „deyja bæði sem fólk og sem þjóð“. Þegar bréfið var gert opinbert í apríl sama ár varð Belo að skotmarki indónesískra stjórnvalda. Staða hans varð enn varasamari þegar hann veitti ungmennum hæli í fjöldamorðum Indónesíuhers í Dili árið 1991 og reyndi að afhjúpa fyrir heiminum hversu margir hefðu látið lífið.
Mannúðarstörf Belos hlutu viðurkenningu á alþjóðavísu í desember árið 1996 þegar hann vann til friðarverðlauna Nóbels ásamt landa sínum, José Ramos-Horta. Belo nýtti sér tækifærið til að vekja athygli á málstað sínum með því að funda með Bill Clinton Bandaríkjaforseta og Nelson Mandela forseta Suður-Afríku. Árið 1995 vann Belo jafnframt til Frelsisverðlauna Johns Humphrey frá kanadísku mannréttindasamtökunum Réttindum og lýðræði.[4]
Afsögn og síðari störf
breytaEftir að Austur-Tímor hlaut sjálfstæði þann 20. maí árið 2002 fór heilsu Belos að hraka vegna streitu og ofkeyrslu. Jóhannes Páll 2. páfi samþykkti afsögn hans sem postullegs umsjónarmanns Dili þann 26. nóvember 2002.
Eftir afsögn sína ferðaðist Belo til Portúgals til að hljóta læknismeðferð. Í byrjun ársins 2004 hlaut hann fjölda áskorana um að snúa aftur til Austur-Tímor og bjóða sig fram til forseta. Hann tilkynnti hins vegar í maí sama ár í viðtali í portúgalska ríkissjónvarpinu að hann myndi ekki þiggja tilnefningu í forsetaframboð og sagðist munu „eftirláta stjórnmálamönnum stjórnmálin“. Þann 7. júlí eftirfarandi tilkynnti leiðtogi Salesreglunnar, Pascuál Chavez, að þar sem Belo hefði náð fullri heilsu hefði honum verið falið trúboðsstarf á vegum reglunnar í Mósambík.
Í tilkynningu þann 8. júní sagði Belo að eftir tvo fundi með leiðtoga Söfnuði fyrir trúboð þjóðanna (lat. Congregatio pro Gentium Evangelizatione) myndi hann taka að sér trúboð í biskupsdæminu í Mapútó, höfuðborg Mósambík. Hann hóf störf í júlí árið 2004. Síðar sama ár hlaut hann heiðursdoktorsgráðu frá Universidad CEU Cardenal Herrera í València.
Í febrúar árið 2011 hlaut Belo viðurkenningu sem portúgölskumælandi manneskja ársins frá Alþjóðahreyfingu portúgalskrar tungu í Vísindaakademíunni í Lissabon.
Ásakanir um kynferðislegt ofbeldi
breytaÞann 22. september árið 2022 greindi hollenska tímaritið De Groene Amsterdammer frá því að tveir menn hefðu sakað Belo um að beita þá og fleiri kynferðislegu ofbeldi þegar þeir voru börn í Austur-Tímor. Rannsókn blaðsins gaf til kynna að Belo hefði níðst kynferðislega á ungum drengjum áður og á meðan hann var biskup, bæði í Fatumaca og Díli.[5] Næsta dag staðfesti fjölmiðlafulltrúi Páfagarðs að embættismenn kirkjunnar hefðu beitt Belo agaviðurlögum árið 2020, innan við ári eftir að hafa hlotið ábendingar um hegðun hans í Austur-Tímor á árum áður. Viðurlögin fólu í sér takmarkanir á ferðafrelsi og valdheimildum Belo og bann við því að hann ætti í samskiptum við börn. Honum var jafnframt bannað að vera í sambandi við Austur-Tímor. Páfagarður „endurbætti og styrkti agaviðurlögin“ árið 2021. Fjölmiðlafulltrúi sagði Belo hafa sætt sig við reglurnar í bæði skiptin.[6][7]
Tilvísanir
breyta- ↑ „Hvöttu til viðræðna um framtíð Austur-Tímor“. Morgunblaðið. 11. desember 1996. Sótt 21. janúar 2020.
- ↑ „Heiðraðir fyrir baráttu í þágu kúgaðrar smáþjóðar“. Morgunblaðið. 12. október 1996. Sótt 21. janúar 2020.
- ↑ Fernandes, C. The Independence of East Timor. Sussex Academic Press 2011.
- ↑ „John Humphrey Freedom Award 2009“. Rights & Democracy. 2010. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. september 2011. Sótt 11. maí 2011.
- ↑ Lingsma, Tjitske (28. september 2022). „'What I want is apologies'“. De Groene Amsterdammer (hollenska). Sótt 30. september 2022.
- ↑ „Vatican affirms sanctioning Nobel-winning bishop over sex scandal“. Al Jazeera. 29. september 2022. Sótt 30. september 2022.
- ↑ Horowitz, Jason (29. september 2022). „Vatican Disciplined Nobel Laureate Bishop Over Child Abuse Claims“. New York Times. Sótt 30. september 2022.