Tilgátusaga er fornsaga sem er glötuð, en fræðimenn telja að hafi verið til. Það er að segja tilvist sögunnar er byggð á tilgátum fræðimanna, út frá röksemdum sem geta verið misjafnlega traustar. Einnig getur verið allgóð vissa fyrir að sagan hafi verið til en skiptar skoðanir um hversu umfangsmikið rit hún var og hvaða efni hún hafði nákvæmlega að geyma.

Dæmi um tilgátusögu er Brjáns saga. Í Þorsteins sögu Síðu-Hallssonar er vísað til rits sem nú er glatað. Fræðimenn greinir hins vegar á um hvort umrætt rit var saga Brjáns yfirkonungs á Írlandi eða saga Sigurðar Hlöðvissonar Orkneyjajarls. Og veruleg óvissa er um innihald og umfang ritsins, þó að Brjáns þáttur í Njáls sögu gefi nokkra hugmynd um það.