Breiðabólstaður (Fljótshlíð)

(Endurbeint frá Breiðabólstaður)

Breiðabólstaður eða Breiðabólsstaður er bær og kirkjustaður í Fljótshlíð. Þar hefur lengi verið prestssetur og hafa ýmsir merkisprestar þjónað þar; raunar er sagt að enginn prestur hafi sótt burt frá Breiðabólstað nema til þess að verða biskup.

Breiðabólstaðarkirkja. Ein af krosskirkjum Rögnvaldar Ólafssonar akitekts.

Ormur Jónsson Breiðbælingur, sonur Jóns Loftssonar, bjó á Breiðabólstað og eftir lát hans fluttist dóttir hans, Hallveig, þangað ásamt manni sínum Birni Þorvaldssyni, sem var af ætt Haukdæla, hálfbróðir Gissurar Þorvaldssonar. Hann lenti í erjum við Oddaverja, sem fóru að honum og felldu hann í bardaga þar 17. júní 1221.

Jón Ögmundsson, sem varð fyrsti biskup á Hólum, var prestssonur frá Breiðabólstað og var sjálfur prestur þar áður en hann tók við biskupsdæminu. Ögmundur Pálsson var líka prestur þar áður en hann varð biskup. Af öðrum prestum má nefna Presta-Högna Sigurðsson (1693-1770), sem eignaðist með konu sinni, Guðríði Pálsdóttur, átta syni sem allir urðu prestar, svo og níu dætur. Sagan segir að á Jónsmessu 1760 hafi synirnir allir mætt á Breiðabólstað í fullum prestaskrúða, en séra Högni sjálfur sá níundi, og eins hafi þeir allir níu mætt á Alþingi sama ár.

Á 19. öld var Tómas Sæmundsson, einn Fjölnismanna, prestur á Breiðabólstað og er minnisvarði um hann í kirkjugarðinum þar sem Fjölnismenn létu setja yfir hann. Á síðari hluta aldarinnar var þjóðsagnasafnarinn Skúli Gíslason prestur á Breiðabólstað. Núverandi prestur er séra Önundur S. Björnsson.

Kirkja hefur verið á Breiðabólstað síðan á 11. öld og þar hefur jafnan verið prestssetur. Núverandi kirkja var vígð 1912 og er krosskirkja teiknuð af Rögnvaldi Ólafssyni arkitekt. Í henni eru margir merkir gripir.

Ítarefni breyta

  • Oddgeir Guðjónsson: "Fljótshlíð", Sunnlenskar byggðir IV, Búnaðarsamband Suðurlands 1982.
  • Vigfús Guðmundsson: Breiðabólstaður í Fljótshlíð, Reykjavík 1969.