Högni Sigurðsson
Högni Sigurðsson (11. ágúst 1693 – 7. júlí 1770) prestafaðir. Foreldrar hans voru séra Sigurður Högnason (1654 – 1732) og fyrri kona hans, Guðrún Böðvarsdóttir (1661 – ). Þau sátu Einholt á Mýrum í Hornafirði og þar ólst Högni upp. Hann gekk í Skálholtsskóla og var útskrifaður með góðum vitnisburði 1710. Hann tók prestvígslu 1714 og þjónaði næstu ár sem aðstoðarprestur, ef til vill bæði hjá föður sínum og á Kálfafellsstað í Suðursveit. Hann var sóknarprestur á Kálfafellsstað 1717 – 1727, síðan á Stafafelli í Lóni 1727 – 1750 og loks á Breiðabólstað í Fljótshlíð 1750 – 1763. Þá gaf hann kallið upp við Stefán son sinn en var áfram staðarhaldari til æviloka. Séra Högni var prófastur í báðum Skaftafellssýslum 1723-1739 en síðan hinni eystri 1739 – 1750. Hann missti skamma stund kjól og kall 1751, fyrir svokallað hervirki á hjáleigu frá Breiðabólstað, en fékk komið fyrir sig bótum. Hann þótti góður tungumálamaður og þýddi lærdómskver fyrir börn, sem var kallað Ponti og lengi notað. Hann ritaði einhverja elstu ministerialbók, sem varðveitt er á Íslandi.
Séra Högni giftist 12. október 1718. Kona hans var Guðríður Pálsdóttir (1694-1762). Þau komu upp 17 börnum: Páll, f. 1719, Hólmfríður, f. 1721, Þórunn, f. 1722, Halldór, f. 1723, Stefán, f. 1724, Valgerður, f. 1725, Solveig, f. 1726, Guðrún, f. 1726, Böðvar, f. 1727, Guðrún, f. 1728, Sigurður, f. 1730, Þórður, f. 1731, Ögmundur, f. 1732, Árni, f. 1734, Vigdís, f. um 1734, Guðrún, f. 1735, Elín, f. 1739. Allir átta bræðurnir urðu prestar.
Heimildir
breyta- Hannes Þorsteinsson: Ævir lærðra manna, 28. bindi, bl. 27r og áfram, handrit í Þjóðskjalasafni.
- Páll Eggert Ólason: Íslenzkar æviskrár II, bls. 381-382, Reykjavík 1949.
- Vigfús Guðmundsson: Breiðabólstaður í Fljótshlíð, bls. 58-62, Reykjavík 1969.