Heilkenni alvarlegrar bráðrar lungnabólgu

(Endurbeint frá Bráðalungnabólga)

Heilkenni alvarlegrar bráðrar lungnabólgu (HABL) er lungnasjúkdómur af völdum kórónaveiru.[1] Veikin kom fyrst upp í Guangdong-héraði í Kína í febrúar 2003 varð svo að heimsfaraldri frá í nóvember sama ár fram til júlí 2004. Alls sýktust 8.096 manns og létust 774 samkvæmt Alþjóða heilbrigðisstofnuninni.[2]

Bráðalungnabólguveirur

Smitleiðir og hópsýkingar

breyta

Talið er að áður óþekkt kórónaveira valdi sjúkdómnum. Kórónaveirur geta lifað í umhverfinu í allt að þrjár klukkustundir og geta borist milli manna með dropasmiti og snertimengun. Talið er líklegt að heilbrigðisstarfsmenn sem sýktust af HABL hafi smitast með dropasmiti en algengasta smitleið HABL er talin dropasmit frá öndunarvegi frá sjúklingi til þeirra sem eru nálægt þeim. Árið 2003 kom í ljós að 13 sjúklingar áttu það sameiginlegt að hafa verið gestir á sama hóteli í Hong Kong í febrúarmánuði það ár og margir þessara sjúklinga sem virðast hafa sýkst á hótelinu báru sjúkdóminn með sér til annarra landa og má rekja smit frá þeim til Hanoi í Víetnam, Singapúr, Þýskalands og Toronto í Kanada auk þess sem margir sem sýktust á hótelinu sýktu fleiri innan heilbrigðisstofnana í Hong Kong. Einnig hefur verið rannsökuð hópsýking þar sem karlmaður sem var veiktist af HABL 14. mars 2003 og heimsótti ættingja í fjölbýlishúsi í Hong Kong. Meðal einkenna hans var niðurgangur. Sjúkdómurinn barst til annarra íbúa hússins og þann 15. apríl höfðu 321 íbúar veikst. Talið er líklegt að þessi hópsýking hafi orðið vegna bilaðra vatnslása, brotinna salerna, skemmdra skolpröra og út af öflugum viftum í salernisgluggum sem lágu að brunni þar sem rör lágu eftir.

Einkenni

breyta

Megineinkenni HABL eru hiti, þurrhósti og öndunarerfiðleikar sem koma fram á 3. til 5. degi eftir að einkenni hefjast. Flestir sjúklingar fá hroll, vöðva- og höfuðverk og sumir fá niðurgang eða særindi í hálsi. Í flestum tilvikum veldur sjúkdómurinn lungnabólgu sem sést á lungnamynd sem staðbundnar lóbar- eða miðvefsþéttingar. Lungnabólgan getur bæði líkst bakteríu- og veirulungnabólgu. Í 10-20% tilvika þarf sjúklingur að vera í öndunarvél og dánartíðni er talin 5%. Meðgöngutími sjúkdómsins er vanalega 2 - 7 dagar en getur verið 10 dagar. [3]

Tilvísanir

breyta
  1. „Heilkenni alvarlegrar bráðrar lungnabólgu (HABL)“. 12. mars 2007.
  2. „Summary of probable SARS cases with onset of illness from 1 November 2002 to 31 July 2003“.
  3. „Heilkenni alvarlegrar bráðrar lungnabólgu (HABL) Höf. Haraldur Briem,Læknablaðið 2003/89“ (PDF).
   Þessi heilsugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.