Bogi Ágústsson

Íslenskur fréttamaður

Bogi Ágústsson (fæddur 6. apríl 1952) er fréttamaður Ríkisútvarpsins.

Foreldrar Boga voru Jónína Guðný Guðjónsdóttir húsmóðir og Ágúst Jónsson skipstjóri. Eiginkona Boga er Jónína María Kristjánsdóttir kennari og eiga þau þrjú börn og sjö barnabörn.

Nám og störf

breyta

Bogi lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1972 og stundaði nám í sagnfræði við Háskóla Íslands frá 1972-1977.

Bogi starfaði sem kennari við Álftamýrarskóla frá 1975-1977, var fréttamaður hjá Fréttastofu Sjónvarpsins frá 1977-1984. Hann flutti til Kaupmannahafnar árið 1984 og starfaði sem fréttamaður þar og flutti fréttir frá Norðurlöndunum fyrir Ríkisútvarpið til ársins 1986. Árið 1987 varð hann aðstoðarframkvæmdarstjóri Ríkisútvarpsins. Um nokkra mánaða skeið árið 1988 var hann blaðafulltrúi Flugleiða, nú Icelandair. Sama ár varð hann fréttastjóri Ríkissjónvarps og gegndi starfinu til ársins 2003. Bogi varð þá forstöðumaður fréttasviðs Ríkisútvarpsins, en lét af því starfi við skipulagsbreytingar 2007. Síðan hefur hann starfað sem frétta- og dagskrárgerðarmaður. Bogi hefur meðal annars verið umsjónarmaður þáttanna „Viðtalið“ og „Fréttaaukans“. Hann var umsjónarmaður umræðuþáttarins ,,Hringborðið" á RÚV ásamt Þórhildi Þorleifsdóttur og Styrmi Gunnarssyni. Bogi hefur verið einn af fréttalesurum Ríkissjónvarpsins frá árinu 1979.

Bogi var formaður starfsmannafélags Sjónvarpsins 1982-1984, varaformaður fréttanefndar EBU (Sambands útvarps-sjónvarpsstöðva í Evrópu) og formaður ritstjórnarnefndar EBU. Bogi var formaður Norræna félagsins í Reykjavík frá 2010 til 2014 og er formaður Norræna félagsins á Íslandi frá árinu 2015 til 2019. Bogi er formaður stjórnar Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar og hefur verið frá 2009. Hann hefur verið varaformaður stjórnar Norræna hússins í Reykjavík frá 2017. Bogi fékk Edduverðlaunin sem Sjónvarpsmaður ársins 2014. Hann hefur einnig setið í stjórn Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.[1][2]

Bogi er mikill stuðningsmaður Knattspyrnufélags Reykjavíkur og hefur starfað í KR-útvarpinu frá því það hóf útsendingar 1999.

Á laugardegi verslunarmannahelgarinnar 2009 hóf Bogi kvöldfréttatímann með orðunum "Gott kvöld. Nú hefjast fréttir laugardaginn 1. ágúst, samt ekki allar þær fréttir sem við ætluðum að segja ykkur, því að í kvöld ætluðum við að greina frekar frá risavöxnum lánafyrirgreiðslum Kaupþings til fyrirtækja í eigendahópi bankans. Við getum það því miður ekki. Sýslumaðurinn í Reykjavík samþykkti nú rétt fyrir fréttir beiðni Kaupþings um lögbann við birtingu og umfjöllun um trúnaðargögn frá stjórnarfundi bankans í september í fyrra. Þar var fjallað um lánveitingar til stærstu viðskiptavina bankans.". „Kvöldfréttir Sjónvarps, 1. ágúst 2009“.

Bogi var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu þann 17. júní 2019 fyrir störf á vettvangi fjölmiðlunar og norrænnar samvinnu og er nú í Orðunefnd.[3]

Tilvísanir

breyta
  1. Pétur Ástvaldsson, Samtíðarmenn A-Í, bls. 124, (Reykjavík, 2003)
  2. Norden.is, „Bogi Ágústsson nýr formaður Norræna félagsins“ Geymt 24 júní 2019 í Wayback Machine (skoðað 24. júní 2019)
  3. Mbl.is, „Bogi og Halldóra sæmd fálkaorðu“ (skoðað 24. júní 2019)