Svartskeggur

Enskur sjóræningi
(Endurbeint frá Blackbeard)

Edward Teach eða Edward Thatch (f. í kring um 168022. nóvember 1718), betur þekktur sem Svartskeggur (Blackbeard á ensku) var enskur sjóræningi sem var virkur í Vestur-Indíum og við austurströnd Norður-Ameríku. Lítið er vitað með vissu um uppvöxt hans en líklega fæddist hann í Bristol á Englandi. Nýlegar ættfræðirannsóknir gefa til kynna að fjölskylda hans hafi flutt til Jamaíku, þar sem Edward Thatch yngri var skráður sem sjóliði um borð í breska herskipinu HMS Windsor árið 1706.[1]

Teikning af Svartskeggi frá árinu 1726.

Hugsanlegt er að hann hafi verið sjómaður og fríbýtari á meðan stríð Önnu drottningar geisaði en hafi síðan sest að á Bahamaeynni New Providence. Þar var búsettur Benjamin Hornigold skipstjóri, sem réð Teach til vinnu einhvern tímann fyrir árið 1716. Hornigold gaf Teach til umráða slúppu sem hann hafði lagt hald á og saman rændu þeir fjölmörg kaupskip. Sjóræningjunum óx fiskur um hrygg þegar þeir bættu við sig tveimur skipum í flotann, einu þeirra undir stjórn sjóræningjans Stede Bonnet. Árið 1717 settist Hornigold hins vegar í helgan stein og tók tvö skipanna með sér.

Teach lagði hald á franskt kaupskip, gaf því nafnið Hefnd Önnu drottningar (Queen Anne's Revenge) og vopnvæddi hana með fjörutíu fallbyssum. Hann varð alræmdur sjóræningi og fékk sitt fræga gælunafn vegna þykks svarts skeggs síns og ógurlegrar ásýndar. Sögur fóru af því að Svartskeggur hefði bundið glóandi púðurstrengi undir hatt sér til þess að skelfa óvini sína. Hann myndaði bandalag með öðrum sjóræningjum og sat með þeim um höfnina Charles Town í Suður-Karólínu. Hann sagði skilið við Bonnet og settist að í Bath Town, þar sem hann þáði náðun konungsins. Brátt var hann þó kominn aftur til sjávar og vakti athygli Alexanders Spotswood, ríkisstjóra Virginíu. Spotswood safnaði liði sjómanna og hermanna til að handsama sjóræningjann, sem þeir og gerðu þann 22. nóvember 1718. Eftir heiftarlegan bardaga voru Teach og áhöfn hans ráðin af dögum af hóp sjómanna undir stjórn Roberts Maynard liðsforingja.

Á ferli sínum forðaðist Teach að grípa til ofbeldis þegar mögulegt var og notaði þess í stað ógurlegt orðspor sitt og útlit til að hræða fram þau viðbrögð sem hann ásældist frá fórnarlömbum sínum. Þvert á nútímaímynd sjóræningjaskipstjórans sem ógnvalds og harðstjóra stýrði Svartskeggur skipum sínum með leyfi skipverjanna og engar heimildir eru um að hann hafi nokkurn tímann drepið gísla sína eða gert þeim mein. Svartskeggur var litinn rómantískum augum eftir dauða sinn og varð fyrirmyndin fyrir fjölda skáldverka um sjóræningja.

Tenglar breyta

  • Heiða María Sigurðardóttir (6. apríl 2004). „Hvað hét Svartskeggur sjóræningi réttu nafni, hvaðan kom hann og hvað var skipið hans kallað?“. Vísindavefurinn. Sótt 7. mars 2024.

Heimildir breyta

  1. Brooks, Baylus C. (2015). Blackbeard Reconsidered: Mist's Piracy, Thache's Genealogy. North Carolina Office of Archives and History. bls. 20–22.