Leiðarhólmssamþykkt

Leiðarhólmssamþykkt var samþykkt sem gerð var vorið 1513, á þriggja hreppa þingi á Leiðarhólmi í Dölum, og var hún liður í baráttu íslenskra höfðingja við kirkjuvaldið og beindist gegn biskupunum, Gottskálk Nikulássyni Hólabiskupi og Stefáni Jónssyni Skálholtsbiskupi.

Þeir sem stóðu fyrir samþykktinni voru höfðingjarnir Björn Guðnason í Ögri og Jón Sigmundsson lögmaður, sem báðir höfðu átt í miklum deilum við biskupana, Jón við Gottskálk og Björn við Stefán, og var það Björn sem samdi skjalið. Þar skuldbundu menn sig til að þola biskupum ekki ójöfnuð en þó skyldi farið að kirkjulögum. Biskupar höfðu áratugina á undan gerst stöðugt ásælnari í eignir höfðingja og meðal annars dæmt suma til eignamissis fyrir frændsemishjónabönd og önnur siðferðisbrot. Tókst Gottskálk á endanum að hafa mestallar eignir Jóns lögmanns af honum en Birni gekk betur að halda hlut sínum.